149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2022 til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

13. mál
[15:57]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get verið hjartanlega sammála því sem hv. þingmaður sagði. Ég hef séð tilbúið mál, mál með nefndaráliti, vera í rauninni stöðvað inni í nefnd. Þegar komið er á það stig málsins að búið er að afgreiða umsagnir og nefndarálit fyrir nefnd er tilbúið þá á að hleypa því, að því að mér finnst, til 2. umr. í þinginu, nefndin er búin að klára sitt ferli. Ég ber líka mjög mikla virðingu fyrir því að að sjálfsögðu eru nefndir að glíma við mjög mörg mál og það er forgangsröðun á tíma þar o.s.frv. Sum mál þurfa kannski ekki heimsóknir af því að skriflega umsögnin á að duga. Það ætti ekkert í heimsókn til nefndar að koma fram aukalega á munnlegum vettvangi sem er ekki til í skriflegri umsögn. Það getur gerst auðvitað í spurningum fram og til baka, en skrifleg gögn ættu að vera það sem við byggjum á, m.a. vegna þess að nefndarfundir eru ekki opnir og aðgangur fólks að upplýsingum sem koma fram munnlega í nefndinni er erfiður, verða oft bara orð á móti orði þegar komið er síðan inn í þingsal og verið að togast á um það, þessi sagði hitt og hinn sagði þetta. Það er mjög erfitt viðfangs.

Nú er þetta mjög viðamikil þingsályktunartillaga og mjög vel gerð að því leyti til. Þá velti ég fyrir mér hvort það sé einhvers konar innbyggt ferli í þessu, t.d. kostnaðaráætlun, svo ég komi að þessu frá fjárlaganefndarsjónarmiðinu.