149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2022 til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

13. mál
[15:59]
Horfa

Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þessi tillaga gerir ráð fyrir því að gerð verði áætlun til fjögurra ára og hún verði tímasett og sett verði inn viðmið þannig að hægt verði að árangursmeta með reglulegu millibili.

Mér finnst það mjög mikilvægt. Við getum auðvitað sett fram einhver falleg orð eins og við erum að gera og samþykkt alls konar stefnur sem eru ekki fjármagnaðar og ekki tímasettar og ekki árangursmetnar, en þarna erum við að tala um málefni barna á Íslandi. Í fyrsta lagi eigum við ekki að leyfa okkur að vera ekki með áætlun í þessum efnum þannig að það er mjög mikilvægt að setja áætlunina niður. Það er mjög mikilvægt að hún sé fjármögnuð. Ég hef ekki reiknað út hvað það kostar að bæta þessa stöðu, en það mun kosta. Ein tillagan er t.d. að nýtt barnahús verði sett á laggirnar, það mun kosta. En það mun margborga sig. Það borgar sig fyrir öll ríki að huga vel að börnunum sínum. Það er sama hvernig á það er litið. Þessi tillaga er innlegg inn í það. Við getum gert betur hér á landi þegar kemur að því að bæta hag barna og styrkja stöðu þeirra.

Svo er það spurningin hvernig við vinnum hérna í þinginu. Tíminn hefur mikið að segja og auðvitað erum við stundum að vinna bara að tæknilegum málum. Oft erum við að vinna að málum sem við erum öll 100% sammála en samt komast þau ekki áfram. Svo erum við líka í pólitík. Þá er kannski erfitt stundum fyrir meiri hlutann að hleypa einhverju máli í gegn ef minni hlutinn er ekki sammála um málið. Þegar við erum sammála þá eigum við að ganga frá hlutunum sem ég vona að eigi við um þessa tillögu.