149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2022 til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

13. mál
[16:01]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir að þessi tillaga skuli vera komin fram. Hún leysir eitt stærsta vandamál þegar kemur að velferð barna á Íslandi sem er að þótt börn hafa réttindi og búið sé að samþykkja þau í lög, þótt barnasáttmálinn sé í lögum á Íslandi og vinna ætti eftir honum, búið er að útfæra það í alls konar reglugerðum og slíku, þá er það bara ekki gert. Oft er svarið: Það eru ekki til peningar fyrir því. En það er ekki nógu gott svar. Ég held að allir hérna inni geti sagt við sjálfan sig: Já, velferð barna á að vera hafin yfir allan vafa. Við ætlum sem samfélag að sameinast um að hafa það þannig.

Ég veit að formaður velferðarnefndar, hv. þm. Halldóra Mogensen, er mjög skilvirk þegar kemur að því að gæta jafnræðis þegar mál fara í gegnum nefndina. Ég veit því að hún mun passa upp á að málið verði unnið vel. En það er, eins og var nefnt í andsvörum áðan, ákveðin hætta þegar pólitíkin fer að þvælast fyrir og menn eru að passa upp á að þessi eða hinn fái ekki viðurkenningu fyrir þetta og hitt o.s.frv. Ég vona að menn fari ekki þangað og ef þeir fara þangað finni þeir einhverja lendingu þannig að velferð barna sé alltaf hafin yfir vafa, að það sé alltaf grunnstefið. Kannski mun vinnsla málsins þýða að gerð verður eitthvað sameiginlegt með það svo að enginn geti eignað sér heiðurinn umfram aðra. Lykilatriðið verður að vera að velferð barna sé hafin yfir vafa. Ég myndi segja að þessi tillaga sé, miðað við það sem ég veit um stöðuna, það stærsta sem hægt er að gera í einu stökki. Við þurfum að stilla upp og vera með aðgerðaáætlun um hvernig ætlum við að innleiða þessa hluti.

Ég er talsmaður barna og hef verið það í tæpt ár fyrir þingflokk Pírata. Allir þingflokkar eru með talsmann barna og við hittum UNICEF í gær sem sér um að meginhlutverk starfsstöðvarinnar á Íslandi sé að benda okkur og stjórnvöldum á að búið sé að lögfesta barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Það eina sem vantar er stefnumótunin, að lögunum sé raunverulega framfylgt. Eitt af því sem mun auka líkurnar á að það sé gert er það sem kemur fram hér, að þriðja valfrjálsa bókun um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins verði lögfest hér á landi. Það gefur barninu í raun heimild, ef réttindi barns eru ekki uppfyllt getur barnið kvartað til Sameinuðu þjóðanna og Sameinuðu þjóðirnar fara þá í að láta virkja þetta með ríkari hætti og beina því til stjórnvalda: Þið hafið ekki staðið ykkur í stykkinu. Þið eruð búin að samþykkja samninginn. Þið eruð búin að lögfesta hann. Þið standið ykkur ekki í stykkinu.

Ég vona að þetta mál fái góðan framgang. Ég veit að það mun fá það hjá minni hlutanum í velferðarnefnd, ég trúi ekki öðru. Ég mun alla vega fylgjast vel með því ef menn ætla að reyna að stöðva málið á ómálefnalegan hátt eða þvælast fyrir, slíkt getur gerst í pólitíkinni á þinginu. En ég vil segja, eins og flutningsmaður málsins, hv. þm. Oddný G. Harðardóttir: Látum ekki pólitíkina þvælast fyrir. Lykilþemað í samtölum okkar á alltaf að vera réttindi barnsins, velferð barnsins verður að vera hafin yfir vafa. Tillagan gengur langt í þá átt.