149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2022 til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

13. mál
[16:05]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka fyrir þessa flottu og góðu þingsályktunartillögu. Hún er viðamikil og mér þykir vænt um þessa „samþættu nálgun“ — ég ætla að orða það þannig; ég er að reyna að finna íslensk orð fyrir enska orðið „intergrate“, með leyfi forseta, vona að það sé rétt. Það er nefnilega svo mikilvægt að það sé heildarsýn í þessu og að hin mörgu og mismunandi ráðuneyti komi að og taki þátt í þessari vinnu út af því að þetta á við um svo marga hluta af þjóðfélaginu okkar sem þarf að skoða til að tryggja velferð barna okkar og fjölskyldna og samfélagsins alls. Mér þykir ótrúlega vænt um það.

Ég ætla að taka fram sérstaklega það sem höfðar til mín eða talar til mín þegar verið er að tala um að það yrði samráðsvettvangs ríkisins og aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga að móta tillögur um aðgerðir til að samræma vinnu og fjölskylduábyrgð og þjónustu við barnafjölskyldur. Það er gríðarlega mikilvægt að fyrirtæki setji sér fjölskyldustefnu, stytti vinnutíma og geri vinnutímann sveigjanlegri. Við getum tekið þetta til okkar hér á þingi að huga að því að gera þetta starf fjölskylduvænna því að ekki veitir af því.

Ég hef mikið talað fyrir því að við þurfum að sníða vinnumarkaðinn að þörfum fólksins, að þörfum fjölskyldna í landinu, en ekki öfugt eins og gert er í dag. Það eru þessi helstu atriði sem mig langaði til að undirstrika. Ég tek líka eftir því að það eru margþættar aðgerðir sem eru allar mjög flottar; að fæðingarorlofið verði lengt í 12 mánuði, það skiptir ofboðslega miklu máli. En eins og ég hef alltaf talað fyrir þá finnst mér einnig mikilvægt að hugað sé að einstæðum foreldrum sem eiga ekki rétt á jafn löngum tíma og tveir foreldrar. Ég veit að það skiptir gríðarlega miklu máli að við reynum að hvetja báða foreldra til að taka þátt í uppeldi barna sinna en við verðum samt að horfast í augu við þá staðreynd að stundum er bara ekki vilji til staðar og stundum er það mögulega ekki einu sinni æskilegt. Það er bara staðreynd sem við verðum að horfa á þegar við tökum þessar ákvarðanir.

Mig langar kannski að nefna aðeins út af því að nú hefur verið rætt um það hvernig þetta verður afgreitt í nefndinni og pólitíkin í kringum þetta allt saman. Það eina sem ég sé fyrir mér sem myndi kannski standa í vegi fyrir þessu, og ég hefði átt að koma í andsvör við hv. þingmann um, er hvort það væri kannski ekki bara sniðugt í nefndarstarfinu, nú velti ég þessu bara upp, að fá einhvers konar kostnaðaráætlun frá fjármálaráðuneytinu á kostnaðinum við þessa þingsályktunartillögu sjálfa, við aðgerðirnar, eða við að setja saman þennan hóp og vinna þessa vinnu bara svo að við höfum einhverja upphæð sem við getum unnið með. Ég get nefnilega ímyndað mér að þetta gæti mjög auðveldlega verið skotið niður út af því að ekki sé gert ráð fyrir þessu í fjárlögum þannig að það er gott að vita hvaða upphæðir við erum að tala um.

Ég er sammála því að þetta er gríðarlega mikilvægt verkefni og það á ekki að falla á því að við höfum ekki efni á því. Þetta er verkefni sem við eigum að hafa efni á, en það skiptir kannski máli að vita hvaða upphæðir við erum að tala um.

Ég get sagt það fyrir mitt leyti sem formaður velferðarnefndar að þá verður ekki og hefur ekki verið fundarfall í velferðarnefnd ef ekki liggur fyrir stjórnarmál til að afgreiða. Það skiptir mig gríðarlega miklu máli að við afgreiðum þingmál stjórnarandstöðuflokkanna og þau fái góða umfjöllun og við afgreiðum þau út úr nefndinni. Þótt það sé pólitískt erfitt fyrir ríkisstjórnarflokkana að fella þau í atkvæðagreiðslu, þá á samt að gera það. Ég mun alla vega hafa það að leiðarljósi í minni vinnu við þetta. Ég hlakka bara til að taka á þessu flotta máli.