149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2022 til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

13. mál
[16:26]
Horfa

Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég vil aðeins örstutt þakka fyrir þessa góðu umræðu. Tillagan gengur út á það að ráðuneytin sem hafa eitthvað með málefni barna að gera og sveitarfélögin, fulltrúar þeirra, setjist niður og vinni þessa áætlun; að fólk á vegum ráðuneytanna vinni áætlunina, en hvert og eitt ráðuneyti sjái auðvitað um sitt.

Hættan er sú, og því miður eru nokkur svæsin dæmi um það, að börn lendi einhvern veginn á milli stjórnsýslustiganna. Ríkið segir sveitarfélögin eiga að sjá um þetta og sveitarfélögin segja ríkið eiga að sjá um þetta, þess vegna er svo mikilvægt að sveitarfélögin séu með í þessari áætlunargerð.

Ég hlakka til að fá tillöguna aftur inn til síðari umr. og til atkvæðagreiðslu. Ég vona að þetta þing afgreiði hana. Ég óska hv. velferðarnefnd alls hins besta í þeirri vinnu. — Takk fyrir umræðuna.