149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum til að heimila skráningu lögheimilis barna hjá báðum forsjárforeldrum.

25. mál
[16:42]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka framsögumanni hennar mál. Ég held að við þekkjum öll sem erum hér í salnum — þótt ekki séum við mörg — dæmi um mál sem þetta frumvarp er sniðið að; dæmi þar sem kerfið stendur í vegi fyrir eðlilegum samskiptum foreldra eftir skilnað; dæmi þar sem vantar augljóslega einhvers konar sanngirni í því hvernig tekið er á málum, hvort sem það er úthlutun frístundakorts eða skráning í tómstundir eða úthlutun barnabóta eða hvað annað það er sem þeir sjö lagabálkar sem hér er fjallað um taka á.

Við fjölluðum um þetta í allsherjar- og menntamálanefnd í vor þegar til umfjöllunar var frumvarp til laga um lögheimili og aðsetur. Þar reyndum við sérstaklega að ná utan um þessa tvöföldu lögheimilisskráningu á öllum þessum sömu forsendum og hv. framsögumaður nefnir en náðum ekki til lands þar sem svitaperlur spruttu fram á fólki í ráðuneytunum vegna þess að verkefnið er flókið. Þau sögðu að þessi vinna væri í gangi á milli dómsmála- og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, ef ég man rétt. Þannig að ég velti fyrir mér hvort framsögumaður telji að sú vinna ætti kannski að fá að fara fram, hvort við getum verið áhyggjulaus með þetta sjö kafla þingmannamál eða hvort við ættum að, hvað eigum við að segja, gæta sérstakrar varúðar og bíða eftir því að ráðuneytin skili af sér sínu verki.