149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum til að heimila skráningu lögheimilis barna hjá báðum forsjárforeldrum.

25. mál
[16:44]
Horfa

Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Þetta er náttúrlega alveg hárrétt. Þetta mál var í skoðun og töluverð vinna var lögð í það. Svo kom jóðsóttin og barnið sem fæddist var sú niðurstaða að breytingin yrði sú að hjónum yrði heimilt að skrá lögheimili hvort á sínum stað. Ég geri ekki lítið úr því að það er örugglega hentugt fyrir ýmsa aðila ef þannig ber undir, en það er alveg ljóst að hagsmunirnir eru töluvert meiri fyrir fleiri og vega þyngra í þessu máli. Þess vegna held ég að eftir þennan umgang sem málið fékk í ráðuneytinu, í kerfinu — og niðurstaðan varð þessi og þetta er flókið mál, ég er alveg klár á því. Ég held hins vegar að hvatinn til þess að bretta upp ermarnar og fara í þetta verði klárlega meiri ef löggjafinn er búinn að segja skýrt hvað hann vill í þessu máli.

Aftur ítreka ég það sem ég sagði áðan: Þetta hefur ekkert verið einföld þróun fyrir fólk sem skilur og það er með ólíkindum að horfa á þessar tölur, að 90% þeirra sem skilja kjósi að fara þessa leið, að reyna að ala börnin sín upp á þennan hátt og síðan stoppar kerfið þetta einhvern veginn af því að þar erum við búin að byggja veggi sem er að einhverju leyti erfitt og mögulega kostnaðarsamt að brjóta niður. Ég myndi hvetja til þess að við keyrum þetta mál áfram. Það getur vel verið að það komi einhverjar mjög góðar ábendingar frá þeim sem hafa unnið verkið, einhverjar breytingar. En ég tel enga ástæðu til að bíða með það að löggjafinn, ef við á annað borð náum saman um þetta mál, segi hvað honum finnist og verði þannig leiðarljós fyrir kerfið.