149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum til að heimila skráningu lögheimilis barna hjá báðum forsjárforeldrum.

25. mál
[16:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna framkomnu frumvarpi og lýsa yfir stuðningi mínum við það með þeim örlitla fyrirvara að ég hef ekki gramsað í því alveg til enda, enda um frekar flókið mál að ræða eins og fram hefur komið í skýrslu sem rædd var áðan og í umræðum um málið almennt. Í sjálfu sér hef ég ekki mikið meira að segja um málið, enda lendir það í minni nefnd, allsherjar- og menntamálanefnd, þar sem við komum til með að skoða það ofan í kjölinn.

En mig langaði að vekja athygli á því, vegna þess að ég veit að ég verð spurður af öðrum, að ég sendi inn fyrirspurn á sínum tíma til félags- og jafnréttismálaráðherra í sambandi við niðurstöðu starfshóps í skýrslu sem var unnin fyrir innanríkisráðherra árið 2015 um sama efni. Ég fékk svar þaðan þar sem mér var reyndar bent á dómsmálaráðherra, en svarið kom og þar var niðurlagið að fyrirhugað væri að vinna við frumvarpið gæti hafist í febrúar, sem er febrúar á þessu ári.

Síðan kom 149. þing sem við erum á núna og þá sendi ég aftur inn fyrirspurn til dómsmálaráðherra um það hvort vinna væri hafin við frumvarpið og hvenær ráðherra teldi líklegt að það yrði tilbúið til framlagningar. Sömuleiðis spurði ég hvort einhver ný álitamál hefðu vaknað sem væru líkleg til að tefja gerð frumvarpsins og ef svo væri hvaða álitamál það væru. Svar við þeirri fyrirspurn hefur ekki borist en það má kannski búast við því að svarið verði að ráðherra ætli ekki að leggja fram frumvarp vegna þess að þingflokkur Viðreisnar hefur þegar gert það, sem ég fagna.

Ég hefði glaður viljað vera meðflutningsmaður á málinu, enda áhugamaður um efnið, en ég fagna því auðvitað alltaf þegar þingflokkar sýna það frumkvæði sem hér er sýnt. Mér finnst líka ágætt að við minnum okkur á við það tilefni að ráðherrar þurfa ekki endilega að gera allt. Ég íhugaði að skrifa svona frumvarp sjálfur. Það er annars vegar sú hugmynd að setja einfaldlega tvö lögheimili inn í þjóðskrá, sem hefur reynst ægilega flókið, og hins vegar að fara í allar þessar lagauppfærslur, sem ég skoðaði á sínum tíma og var reyndar búinn að opna textaritil og hugsaði þá með mér að kannski væri betra að bíða eftir ráðherra og fá hann til að gera þetta.

En nú hefur Viðreisn lagt fram frumvarp og mér finnst það alveg mega minna okkur á að við þurfum ekki alltaf að stóla á ráðherra til að gera hlutina. Það er mikilvægt að þingið sjálft og þingmenn í minnihlutaflokkum geti lagt fram frumvörp og þau séu tekin jafn alvarlega og ríkisstjórnarfrumvörp þegar þau fjalla um málefni eins og þetta.

Ég segi fyrir mitt leyti hvað varðar málsmeðferð málsins að ég ætlast til þess að það fái gott gengi í þinginu með hliðsjón af því að ráðherra hefur sagst ætla að leggja fram sambærilegt mál og með hliðsjón af því að sátt virðist um að þetta þurfi að gera. Ég býst því við því og ætlast til þess af hv. allsherjar- og menntamálanefnd að málið muni ekki líða fyrir það að vera lagt fram af öðrum en ráðherra.