149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum til að heimila skráningu lögheimilis barna hjá báðum forsjárforeldrum.

25. mál
[16:56]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Til að halda áfram með þessa umræðu um að dómsmálaráðuneytið sé líka að vinna í þessu máli, þá kemur þetta mál aldrei til með að tefja fyrir þeirri vinnu. Ef eitthvað er þá ætti það í raun bara að hjálpa til að þingið sé þegar byrjað á þessu og fái umsagnir um málið. Kannski stillist þetta af á þann hátt að það verður bara allt tilbúið til að þessar lagabreytingar geti tekið gildi þegar þingið er búið að klára málið og allt gengur sem best hvað það varðar.

Þá myndi ég vilja koma meira inn á það kerfislæga í málinu og tala aðeins um það út frá sjónarhorni gagna og gagnagrunna. Þetta er þegar allt kemur til alls gagnagrunnsmál, að skrá barn á tvo aðila í þjóðskrá, þ.e. að það komi fram á tveimur stöðum. Maður hefur heyrt að það sé það flókna við þetta, en það er nákvæmlega ekkert tæknilega flókið við það.

Það sem gerist hins vegar í kjölfarið er að þessi skráning hefur áhrif hjá Tryggingastofnun og víðar, á barnabætur og húsnæðisstuðning og ég veit ekki hvað og hvað, þar sem þessi breyting og skráning erfist. En tæknilega séð ætti skráningin ekki að taka langan tíma og ætti ekki að vera flókið verk ef maður vinnur út frá gagnaskipulagi til að byrja með. Ég hafna pínulítið kenningunum um að þetta sé flókið því að það er ekkert mjög erfitt að bæta við nýjum gögnum sem taka tillit til hlutfalls lögheimilisskráningar og það renni einfaldlega inn í þá útreikninga sem til eru. Þá þarf bara að gera útreikninga fyrir hvort foreldrið um sig og barnið tekið sem lögheimilishlutfall hjá því foreldri.

Frekar en að hafa áhyggjur af því að þetta valdi einhverjum sérstökum höfuðverk í kerfinu tel ég að höfuðverkurinn sé til að byrja með sá að við erum ekki að vinna á gagnadrifinn hátt. Við notum eldri kerfi eða eldra tengslanet gagna en tíðkast nú til dags. Þess vegna er þetta svona flókið.

Í kjölfarið og óháð þessu máli þá finnst mér að þingið ætti að taka mjög vel á móti öllum tillögum um að uppfæra upplýsingatæknimál Stjórnarráðsins. Það er sannarlega kominn tími til. Ef þau væru í lagi eins og þau voru til að byrja með, Ísland var mjög framarlega í innleiðingu á upplýsingatækni framan af en hefur fallið mjög mikið á síðastliðnum árum hvað það varðar, ef við værum á réttum stað með upplýsingatæknimál Stjórnarráðsins, ráðuneyta og stofnana, myndi ekki heyrast að það væri flókið að innleiða þessi lög inn í kerfið. Það er áhugaverður agnúi á því ferli sem býr til þennan þröskuld að svona augljóst réttindamál kemst ekki til framkvæmda af því að við höfum ekki eytt nægilega miklum tíma og sinnt því að byggja upp upplýsingatæknikerfi ríkisins.

Samfara því að ég vona að þetta frumvarp nái góðu flugi í gegnum þingið þá vona ég að við leggjum metnað í að koma upplýsingatæknimálunum, gagnagrunnsmálunum o.s.frv. á réttan stað, í gagnið. Það myndi t.d. hjálpa mjög mikið við allar fyrirspurnirnar sem ég sendi inn, það yrði miklu fljótlegra að svara öllum fyrirspurnum. Ég gæti meira að segja flett upp svörunum sjálfur miklu meira. Það myndi spara heilan helvítis helling líka, afsakið orðbragðið.