149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum til að heimila skráningu lögheimilis barna hjá báðum forsjárforeldrum.

25. mál
[17:01]
Horfa

Sigríður María Egilsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Tímarnir hafa breyst og þeir eru að breytast. Staðlaðar ímyndir kynjahlutverka eru á hröðu undanhaldi og fólk fær sífellt meira frelsi til að ákveða fyrir sig sjálft hvers konar lífi það vill virkilega lifa. Breytt fjölskyldumynstur er eitt af því sem fylgir þessu.

Nú eru ekki mörg ár síðan konur byrjuðu að ryðja sér til rúms á vinnumarkaðnum. Það eru enn færri ár síðan karlmenn byrjuðu að krefjast þess að viðurkennt væri að þeir væru sömuleiðis mikilvægir og hæfir umönnunaraðilar og uppalendur. Í dag fjöllum við um einn ávinning þeirrar baráttu. Sífellt fleiri feður leyfa sér að njóta til hins ýtrasta að vera feður og uppalendur og sífellt fleiri mæður samþykkja í þeim tilvikum að faðirinn sé álíka mikilvægur hluti af lífi barnsins.

Fólk getur skilið hvenær sem er á lífsleiðinni en það færist í aukana að foreldrar komi sér saman um sameiginlega forsjá barna sinna. Í sameiginlegri forsjá felst að ábyrgðin á uppeldi barns er ekki aðeins á herðum annars foreldris heldur er henni deilt á milli aðilanna. Börn í dag búa mörg hver á tveimur heimilum. Þau eiga sitt rúm, sitt pláss, sitt herbergi, sinn fataskáp, á báðum stöðum. Annað heimilanna er því ekki bara aðsetur barnsins, það er líka heimili þess. Þegar svo ber við á stjórnsýslan ekki að hafna þeirri hugsjón á grundvelli þess að of sé flókið að breyta því, að gagnagrunnurinn sé of gamall til að taka við slíkri breytingu. Eins og hv. þingmaður fór yfir áðan er ekki einu sinni svo flókið að leysa úr því vandamáli og má leysa það með nokkuð auðveldum breytingum og tilfærslum.

Lögheimili barna hefur þýðingu fyrir rétt foreldra til opinbers stuðnings vegna barna sinna. Þegar foreldrar deila ábyrgð á börnum sínum eiga þeir báðir að eiga rétt til slíks stuðnings í samræmi við tekjur. Það sama á við um ákvarðanatöku varðandi barnið. Hver er sanngirnin í því að lögheimilisforeldri hafi aukið vald, og í sumum tilfellum algert vald, til að segja af eða á þegar barnið sjálft er jafnt á ábyrgð beggja foreldra alla jafna?

Þeir foreldrar sem eru þeirri stöðu að geta deilt forsjá og ábyrgð á barninu eiga að geta tekið ákvarðanir um barnið saman. Þetta er ekki einungis sanngirnismál heldur verðum við líka að líta til mannlega þáttarins. Það er erfitt að slíta samvistum, það er erfitt að binda endi á samband og halda síðan hvort í sína áttina og sjaldnast er það gert alveg í góðu. Það eitt að foreldrar séu í auknum mæli farnir að leggja eigin hagsmuni og tilfinningar til hliðar til þess að gæta hagsmuna barnsins síns og leyfa því að njóta eins góðs sambands og unnt er við hitt foreldri sitt er ekki aðeins jákvæð þróun heldur hreinlega frábær.

En sá þáttur að barn geti eingöngu verið með eitt lögheimili er ekki til þess fallinn að auðvelda foreldrum þá vegferð. Eins og ég sagði áðan hefur aðeins eitt foreldri rétt til opinbers stuðnings og getur krafið hinn aðilann um frekari stuðning og hefur síðan úrslitavald við ákvarðanatöku. Það eitt að slíkt valdaójafnvægi sé til staðar gerir annars eftirsóknavert fyrirkomulag ekki auðvelt, það eykur ekki líkurnar á að fyrirkomulagið haldist og hægir sömuleiðis á þróun sem við teljum annars mjög jákvæða.

Gleymum því heldur ekki að börn eru í fyrsta lagi mjög næm og í öðru lagi erum við almennt engir Óskarsverðlaunaleikarar. Það er erfitt að fela ósætti foreldra fyrir börnunum sínum. Þau finna fyrir því og það veldur þeim vanlíðan. Hlutverk stjórnsýslunnar er ekki að gera foreldrum erfiðara fyrir í samskiptum. Meðan við getum liðkað til eigum við að gera það, hvort sem það er með frumvarpi Viðreisnar eða frumvarpi sem kemur beina leið úr ráðuneytinu.

Þetta er réttlætismál og þetta er framtíðin, hv. þingmenn. Nú stendur löggjafinn frammi fyrir vali um það hvort við ætlum að halda áfram að vera steinvala í skóm þeirra sem eru að reyna að feta nýja slóð eða liðka fyrir nýjum áherslum og þjóðfélagslegum breytingum.

Að lokum vil ég segja að ég vona að þingheimur sjái hag sinn í því að koma þessu máli áfram og láti ekki pólitík standa í vegi fyrir því.