149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum til að heimila skráningu lögheimilis barna hjá báðum forsjárforeldrum.

25. mál
[17:06]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. flutningsmönnum fyrir að leggja fram þetta frumvarp svo að við höfum tækifæri til að tala um mikilvægi þess að börn njóti réttinda. Þá ætla ég, með leyfi forseta, að lesa hér setningu úr greinargerðinni þar sem segir að löggjafinn eigi ekki „að gefa öðru foreldrinu ríkari rétt en hinu til ákvarðanatöku um hagi barnsins. Löggjafinn á ekki að hamla því að foreldrar í þessari stöðu geti alið börnin sín upp með jafnmiklum lagalegum réttindum og foreldrar í sambúð eða hjónabandi.“

Þetta tek ég heils hugar undir. Ég hef reyndar stundum velt því fyrir mér að þegar löggjafinn tók ákvörðun um það á sínum tíma að það væri til eitthvað sem héti sameiginlegt forræði hvort fólk hafi séð fyrir sér hvernig það yrði hreinlega framkvæmt. Því að ég verð að viðurkenna að ég þekki til fólks sem er með sameiginlegt forræði og segir hreint út við mig, afsakið orðbragðið, forseti, að það sé bara prump, þetta sé bara bull. Þetta sé ekki neitt, því að það skiptir bara máli hvar barnið er skráð með lögheimili.

Það er örugglega töluvert til í þessu og þar af leiðandi er mjög mikilvægt að við ræðum þessi mál. Hv. þm. Andrés Ingi Jónsson kom ágætlega inn á að það var rætt nýverið í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Það er skýrsla sem liggur fyrir þinginu í kjölfar þingsályktunartillögu sem tekur á þessu máli. Ég verð að viðurkenna að sú skýrsla var lögð fram áður en ég byrjaði hér þannig að ég hef ekki lesið hana í þaula en hef náð að renna yfir hana. Ég held að það sé ljóst að mikilvægt sé að bregðast við með einhverjum hætti.

Margir hér hafa líka komið inn á það að málið er flókið. Það hefur komið fram í öllum umsögnum og það sýnir sig kannski líka á þessu frumvarpi að hér er verið að leggja til breytingar á ansi mörgum lögum. Og ég óttast það jafnframt að breyting sem þessi geri kröfu um breytingar á jafnvel fleiri lögum. Reyndar held ég að þess sé getið með einhverjum hætti í greinargerðinni að það þurfi að yfirfara enn fleiri lög.

Ég hef líka velt því fyrir mér, kannski svipað og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson kom aðeins inn á varðandi gagnagrunna og tæknina, hvort bara það að þjóðskrá væri með fullkomnari gagnagrunn myndi leysa úr alla vega stórum hluta þeirra vandamála sem uppi eru á borðinu í dag. Ég hef til að mynda heyrt slíkt dæmi frá góðri vinkonu minni, en hún þurfti að fara til sýslumanns til að fá vottorð fyrir því að þetta væri nú örugglega hennar barn til að fara með barninu í banka til að stofna bankareikning fyrir unglinginn. Skiljanlega fannst þessari konu það þvílík niðurlæging að þurfa að fara til einhverrar opinberrar stofnunar til að fá vottorð fyrir því að þetta væri barnið hennar, fara svo með það í bankann. Maður sæi fyrir sér að þetta myndi leysast ef í þjóðskrá væri einhver reitur í tölvukerfinu þar sem þess er getið að það séu tveir foreldrar með forræði yfir viðkomandi barni óháð lögheimili.

Ég vildi velta þessu upp í umræðunni. Í einhverjum tilfellum held ég að vandamálið sé ekki endilega það að lagaramminn sé rangur heldur sé einhver kerfislæg villa úti í samfélaginu, eins og til að mynda hjá bönkunum sem gera kröfur um eitthvað slíkt og ekki sé hægt að kalla fram hverjir eru raunverulegir forsjáraðilar viðkomandi barns. Annað dæmi sem ég hef heyrt er t.d. tryggingafélög sem neita að setja barn inn í heimilistryggingu því að það er ekki skráð með lögheimili, þrátt fyrir að það liggi ljóst fyrir að forræðið sé sameiginlegt og barnið deili tveimur heimilum.

Það allra galnasta fannst mér nú þegar ég heyrði dæmi af því að ríkisskattstjóri, held ég að það hafi verið, sendi bréf inn á heimili sem var stílað á fósturforeldri barnsins, og barnið sjálft vegna þess að barnið var ekki orðið 18 ára, auðvitað, en ekki móður barnsins. Ástæðan fyrir því er sú að ríkisskattstjóri sendir alltaf bréf á þann aðila á lögheimilinu sem er eldri. Í þessu tilfelli var það ekki móðir viðkomandi barns sem fékk upplýsingar sem snertu barnið hennar heldur sambýlismaður. Sem er náttúrlega algerlega galið.

Ég fagna því að þetta frumvarp sé komið fram en ég óttast að flækjustigið sé mjög mikið. Ég reiði mig líka á þá vinnu sem á sér stað í ráðuneytinu við nákvæmlega þetta mál því að mér heyrist á þeim ræðum sem hafa verið fluttar hér og það sem ég hef heyrt á þingmönnum að flestir séu sammála um að fyrst og fremst þurfi að bæta réttarstöðu barnanna, þetta snúist um það. Þá langar mig líka að geta þess að ég er þeirrar gæfu aðnjótandi að vera talsmaður barna hér á þingi og minnist þess að hafa átt fundi með UNICEF og fleiri aðilum þar sem við fjölluðum um réttindi barna og hagsmuni. Þá var ein ábending sem þau komu með og sögðu: Það sem gerir allt flókið er þegar þið eruð að fjalla um réttindi barna og tengið það við fjárhagslega afkomu foreldra. Kannski er kerfið okkar bara þannig að það verði að vera svoleiðis, ég veit ekki, en við gerum það klárlega þegar við hugum að rétti til barnabóta og þess háttar. En ég hef oft velt þessu fyrir mér eftir að þau létu þessi orð falla hvort við getum með einhverjum hætti afmarkað réttindi barna, óháð einhverjum fjárhagstengingum inn í kerfið. Þetta ágæta fólk, og þarna voru líka fulltrúar frá sýslumanni sem höfðu reynslu af því að vera í sáttameðferðum og öðru, sagði fjármálin flækja öll svona mál.

En ég tek undir það sem aðrir hafa sagt, ég held að það verði gott að fjalla um þetta hér og gott að fá inn umsagnir. Ég bíð líka spennt eftir vinnu ráðuneytisins í þessum efnum. Ég verð líka að viðurkenna að sem fyrrverandi sveitarstjórnarmaður þá sé ég mjög mörg flækjustig fólgin í tvöfaldri lögheimilisskráningu. Ég óttast til að mynda eitt stórmálefnið eins og málefni fatlaðra. Getur orðið ágreiningur á milli sveitarfélaga um hvort sveitarfélagið eigi að þjónusta barn með fötlun ef það er skráð með lögheimili á tveimur stöðum? Við getum tekið íþrótta- og frístundastyrki, leikskólagöngu og annað. Ég held að það sé ýmis flækjustig í málinu. En það sem við þurfum fyrst og fremst að horfa á er réttur barnsins og að báðir foreldrar hafi rétt á að taka ákvarðanir um hagi barnsins, hvort sem farin er sú leið að skrá tvöfalt lögheimili eða breyta kerfinu einhvern veginn þannig að foreldrar sem eru með sameiginlega forsjá hafi raunverulega sameiginlega forsjá og sameiginlegan ákvörðunarrétt þegar kemur að hagsmunum barnsins.