149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

uppsögn tollasamnings um landbúnaðarvörur við Evrópusambandið.

22. mál
[17:39]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um uppsögn á svonefndum tollasamningi um landbúnaðarvörur við Evrópusambandið sem nýlega var gerður. Það kom fram í andsvörum við hv. framsögumann tillögunnar hér áðan að ég hafði það álit á þessari tillögu að hún væri nú eilítil sýndarmennska því að tveir meðflutningsmenn tillögunnar voru ábyrgðarmenn að gerð þessa samnings á sínum tíma.

Förum aðeins yfir forsögu þessa samnings og tilurð hans. Áður höfðu slíkir vöruskiptasamningar eða samningar við Evrópusambandið um tollfrelsi eða gagnkvæmar innflutningsheimildir á landbúnaðarvörum verið gerðir. Síðasta stóra varðan í þeirri tímalínu var 2007 er gerður var samningur í kjölfar mikillar umræðu um matarverð. Þá var lokið samningum við Evrópusambandið um gagnkvæm viðskipti með landbúnaðarvörur og í kjölfarið fylgdu stórkostlega miklar breytingar, sérstaklega fyrir kjúklinga- og svínabændur.

Þá var það gert á þeirra kostnað, þessara tveggja búgreina fyrst og fremst, til þess að sækja fram markaðshlutdeild fyrir aðrar búvörur en bændur í þeim búgreinum framleiddu og þarna var mikið óréttlæti á ferðinni. Það var verið að fórna hagsmunum einnar búgreinar fyrir hagsmuni annarra. Þetta var verulega mikið gagnrýnt á þeim tíma og því heitið að gera ekki jafn óréttláta samninga á nýjan leik sem þarna var gert.

Síðan líður tíminn og það fer að bera á því að tollkvótar okkar til Evrópusambandsins fyrir lambakjöt fóru að fyllast eða verulega fór að ganga á þá. Þá vaknaði áhugi sláturleyfishafa á því að láta reyna aftur á samninga við Evrópusambandið um að rýmka enn til fyrir lambakjöti. Áskoranir um það bárust landbúnaðarráðuneyti og frá þeim tíma má í raun og veru rekja aðdraganda þessa samnings sem fyrrverandi utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, og fyrrverandi landbúnaðarráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, gera.

Aftur er það niðurstaða þeirra samningaviðræðna að verulegt ósamræmi sé á milli búgreina fyrst og fremst þ.e. að gengið er lengra á hagsmuni einnar búgreinar umfram aðrar búgreinar. Það er líka rétt — og ég tek það fram, virðulegi forseti, ég er alveg sammála framsögumanninum um ójafnvægi í þessum samningi, að þarna skuli vera samið um kíló á móti kílói og lítra á móti lítra á þessum risamarkaði. Af hverju sömdum við ekki frekar um markaðshlutdeild? Á þeirri forsendu einni átti aldrei að gera þennan samning. Um það er ég algjörlega sammála hv. framsögumanni.

Auðvitað er þetta ekki samningur tveggja aðila sem virða hvor annan þegar við gerum hann með þessum hætti; 500 milljóna manna markaður á móti 320.000 manna markaði. En þetta niðurstaðan. Ég tel líka nauðsynlegt að ég reki það eins og það blasir við frá mínum sjónarhóli sem var í þinginu á þessum tíma.

Það var nú þannig fyrir stjórnarþingmanninn sem hér stendur á þeim tíma að hann sá það í sjónvarpsfréttum þegar búið var að gera þennan tollasamning. Aldrei hafði nein umræða farið fram um hann í þeim þingflokki stjórnarinnar sem ég sit í. Því síður að væntanleg væri niðurstaða í þessar samningaviðræður sem ég hafði á öðrum vettvangi fylgst allnáið með í nokkuð mörg ár. Það kom svolítið eins og þruma úr heiðskíru lofti og varð nú uppi fótur og fit.

Á sama tíma var kyrrstaða í því að endurskoða búvörusamninga við bændur og úr varð, eftir að búið var að gera þennan tollasamning, án þess að meta áhrif hans á íslenskan landbúnað eins og hv. framsögumaður rekur hér og er alveg réttilega gert — og ég varpa þeirri ábyrgð algjörlega til þeirra sem þennan samning gerðu og ætla ekki að bera blak af því, þeim klaufaskap að hafa ekki gert það. Við höfum síðan fengið að sjá mat á því hversu mikið tjón eða hversu mikinn kostnað íslenskur landbúnaður og íslenskir bændur hafa af þessum tollasamningi umfram þann ávinning sem hann á að færa okkur. En við skulum ekki gleyma því að einhvern ávinning hefur íslenskur landbúnaður haft af þessum samningi líka.

Þá var það nú niðurstaðan að gerður var tíu ára búvörusamningur við Bændasamtök Íslands í kjölfarið á þessum tollasamningi. Ég verð að leyfa mér það líka, virðulegi forseti, að vera undrandi á ályktun búnaðarþings gegn þessum tollasamningi. Það var algjörlega ljóst í mínum huga, þegar Bændasamtök Íslands og landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra skrifa undir búvörusamningana til tíu ára, að ein af forsendunum var innleiðing á þessum tollasamningi. Öllum þeim sem sátu í atvinnuveganefnd þingsins og fjölluðu um búvörusamninga í þinglegri meðferð þeirra og öllum þingheimi var fullkomlega ljóst að hluti af þeirri aðlögun og mótvægisaðgerðum sem talað hefur verið um, var gerð þessa tíu ára búvörusamninga, með hækkuðum fjárframlögum vegna íþyngjandi áhrifa tollasamningsins á íslenskan landbúnað. Það var þannig. Þess vegna undrar mig þessi ályktun búnaðarþings á þeim tíma sem hún var gerð og finnst hún slitin úr samhengi við það sem raunverulega gerðist á þessum tíma. Síðan má allt um þessa búvörusamninga segja, hvernig þeir hafa reynst, tilurð þeirra, en við rekjum það ekki hér.

Þetta er stóra myndin, virðulegi forseti. Búvörusamningarnir til tíu ára með hækkuðum fjármunum voru mótvægisaðgerð gegn þessum tollasamningi. Síðan hefur verið unnið úr því, og stendur enn yfir, hvernig ber að framkvæma þennan samning, hvernig við ætlum að útdeila þeim tollkvótum sem um var samið. Það er stórt og mikið verkefni og kannski ekki enn séð fram úr því, því að uppi eru mörg sjónarmið í þeim efnum til þess að tryggja raunverulegan ávinning neytenda af þessum samningi, sem ég segi að okkur beri skylda til að gera, en ekki að gera það með þeim hætti að við sköðum möguleika innlendrar framleiðslu til að takast á við þá samkeppni sem samningurinn leiðir af sér og mun leiða af sér til lengri tíma með fleiri samningum á þessu sviði sem vafalaust verða gerðir.

Ég tel ákaflega nauðsynlegt að þetta hafi komið fram í umræðum um þessa tillögu sem er nú kannski ákaflega sérstök að því leyti að það eru helstu ábyrgðarmenn þessa samnings sem ganga núna fram fyrir skjöldu og halda að í augum okkar séu þeir algjörlega hvítþvegnir af þessum samningi. Svo er ekki. Ég er einn af þeim sem bera ábyrgð á því að þessi samningur var samþykktur hér í þinginu. Það var gert vegna þess að við gengum frá tíu ára búvörusamningi með hækkuðum framlögum og um það vissu bændur þegar þeir greiddu með sínum hætti atkvæði um þessa búvörusamninga á sínum tíma. Ég held að það sé rétt að við höldum þeirri sögu til haga.

Það breytir því ekki að auðvitað eigum við að halda áfram að reyna að gera hagstæðari samninga um vöruviðskipti og um viðskipti með landbúnaðarvörur til lengri tíma, til hagsbóta fyrir íslenskan landbúnað og til sóknar fyrir hann, því að ég held að það sé algjörlega mögulegt og trúi á það og hef ekkert bilað í þeirri trú. Ég held að hv. flutningsmanni gangi nú ekki annað til en að reyna líka að draga fram með hvaða hætti þessi tollasamningur og möguleg mistök við framkvæmd hans geta orðið íslenskum landbúnaði dýr. Um það deilum við ekki.