149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

uppsögn tollasamnings um landbúnaðarvörur við Evrópusambandið.

22. mál
[17:49]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég vil bara segja að legið hafði fyrir í tvö ár að kjósa ætti um framtíð Bretlands í Evrópusambandinu. Það voru sex mánuðir í atkvæðagreiðslu þegar samningurinn var gerður og það var enginn fyrirvari hafður í samningaviðræðunum.

Leyfðu mér að lesa, virðulegur forseti, hverjir ætla að flytja þessa tillögu. Jú, hér er fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson. Þetta hafði legið fyrir. Það var ekkert óvænt í því að þetta helsta markaðssvæði, sem svo réttilega er bent á, væri mögulega á leið út úr Evrópusambandinu og þar með ákveðnar forsendur fyrir samningnum brosnar.

Um aðrar mótvægisaðgerðir get ég ekki svarað, virðulegur forseti. Ég veit að það er að störfum svokallaður tollahópur er snýr að framkvæmd og útboði þeirra tollkvóta og innflutningsheimilda sem nú hefur verið opnað fyrir. Það skiptir máli hvernig við framkvæmum það. Það skiptir máli hvort við tölum um að við séum að heimila innflutning á kjöti, hvort sem það er á beini, í heilum og hálfum skrokkum, og slíka hluti. Það eru ýmsir tæknilegir hlutir sem geta skipt verulega miklu máli og hafa mikil áhrif á það hvernig við framkvæmum samninginn og hvernig hann bitnar á innlendu framleiðslunni en ekki síður hvernig hann birtist í mögulega lægra vöruverði til neytenda.

Þetta er það sem þarf að leita jafnvægis í. Það var heldur enginn fyrirvari gerður í þessum tollasamningi um að við gerðum sömu aðbúnaðarkröfur til þeirra framleiðslu sem við værum að opna fyrir. Mér finnst það vera einn af megingöllum samningsins að við skyldum ekki hafa gert það. Það ætti sannarlega að vera ein af þeim mótvægisaðgerðum sem við gætum mögulega gripið til að ræða út frá þeim þætti.