149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

uppsögn tollasamnings um landbúnaðarvörur við Evrópusambandið.

22. mál
[17:52]
Horfa

Flm. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Hann er svolítið fastur í því hverjir hafi gert þennan samning. Ég segi fyrir mitt leyti að það sem skiptir höfuðmáli í umræðunni er að fá að leiðrétta samninginn, segja honum upp og hefja viðræður að nýju við Evrópusambandið í ljósi breyttra forsendna.

Við vitum vel að niðurstaðan úr þjóðaratkvæðagreiðslunni á Bretlandi, um úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu, kom okkur öllum á óvart. Ég held að það hafi komið allra heimsbyggðinni á óvart. Við þurfum að bregðast við þeim aðstæðum. Það hef ég lagt áherslu á í málflutningi mínum og út á það gengur tillagan. Hún gengur ekki út á það hver gerði samninginn á sínum tíma, enda skiptir það ekki máli í þessu. Hagsmunir landbúnaðarins, íslensks landbúnaðar, skipta máli, að við bregðumst rétt og fljótt og vel við áður en skaðinn er skeður fyrir íslenskan landbúnað.