149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

uppsögn tollasamnings um landbúnaðarvörur við Evrópusambandið.

22. mál
[17:53]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek alveg undir lokaorð í seinna andsvari hv. þingmanns. Við eigum auðvitað að ganga þannig um að þetta skaði ekki landbúnaðinn umfram það sem þörf er á.

Þetta verður verulega íþyngjandi fyrir íslenskan landbúnað, eins og hv. þingmaður rakti ágætlega í framsögu sinni. Það verður líka verulega verðugt verkefni að láta samninginn virka til þeirra hagsbóta sem hann er gerður fyrir neytendur. Um það eiga þó ekki að þurfa að vera átök og á ekki að þurfa að vera ósamrýmanlegt þar á milli.

Ég leyfi mér að vera ósammála hv. þingmanni þegar hann segir að við hefðum ekki geta gefið okkur að niðurstaðan yrði að Bretland gengi úr Evrópusambandinu. Ég ætla ekki að segja að ég hafi séð það fyrir en fyrst ákveðið var að fara í atkvæðagreiðslu gat það alveg eins orðið niðurstaðan. Við hefðum vel getað út frá þeirri forsendu, vegna þess að við gerðum það með opnum augum, við horfðum sérstaklega til mjólkurmarkaðar í Bretlandi þegar við báðum um stærri útflutningsheimildir fyrir mjólkurvörur, sett fyrirvara um það eða í það minnsta bókað hvernig það var.

Það á síðan algjörlega eftir að reyna á þetta, í hvaða umhverfi við gerum aðra og nýja viðskiptasamninga við Bretland í kjölfar þess að þeir ganga úr Evrópusambandinu. Ég veit til þess að hæstv. utanríkisráðherra hefur opnað þær viðræður við Breta og ekki síst út frá hagsmunum landbúnaðarins. Hann hefur breytt því verklagi, virðulegi forseti, hann hefur kallað forsvarsmenn bænda til sín til að ræða þau hagsmunamál og á hvaða honum beri að leggja áherslu í viðræðum við Bretland og önnur þjóðarbandalög og aðrar þjóðir um viðskiptasamninga á þessu sviði. Það er mikil breyting og löngu tímabær.