149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

uppsögn tollasamnings um landbúnaðarvörur við Evrópusambandið.

22. mál
[18:08]
Horfa

Flm. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég heyri að við erum sammála um að þetta er ekki góður samningur. Okkur greinir kannski á um leiðir til að bæta það. Hv. þingmaður veltir því upp hvað myndi gerast ef kosið yrði á ný um úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu. Ég heyrði fyrir stuttu í fréttum að forsætisráðherra Bretlands, Theresa May, hefur gefið afdráttarlausa yfirlýsingu um að ekki verði kosið aftur. Ég held því að það sé eitthvað sem við þurfum ekki að ræða í tengslum við umræðuna.

Hv. þingmaður nefndi einnig hvort ekki væru einhverjar fjölskyldur sem hefðu gott af samningnum. Ég segi það alveg klárt að Miðflokkurinn er svo sannarlega talsmaður þess að neytendur geti keypt hér góðar landbúnaðarvörur á góðu verði. Tillagan gengur ekki út á að koma í veg fyrir að neytendur geti keypt góðar vörur á góðu verði. Hún snýst fyrst og fremst um að búið er að gera samning sem er óhagstæður Íslandi og mikilvægt að bregðast við þeim forsendubresti sem ég hef rakið nokkrum sinnum og birtist okkur nú og mun skella á á miðju næsta ári. Um það snýst þetta fyrst og fremst.

Ég heyri að hv. þingmaður er á þeirri línu. Ég heyri það alveg. Það er aðeins spurning um leiðirnar sem við þurfum að fara. Vissulega eru sex mánuðir skammur tími í alþjóðasamningagerð. Hins vegar eru aðstæðurnar með þeim hætti að bregðast verður við þeim. Þess vegna tel ég tillöguna vera mjög raunhæfa í þeim efnum.