149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

uppsögn tollasamnings um landbúnaðarvörur við Evrópusambandið.

22. mál
[18:13]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Það er kannski rétt að benda á það í upphafi að ef þessi þingsályktunartillaga nær fram að ganga leysir það mig undan þeirri kröfu að skila hæstv. landbúnaðarráðherra tillögum fyrir hönd verkefnahóps um nýja aðferð við að úthluta tollkvótum sem tengjast tollasamningi við Evrópusambandið. Að því leyti ætti ég nú kannski að taka undir þetta, það sparar mér vinnu og tíma.

En þetta er nú ekki svo einfalt. Ég hygg nefnilega að því miður hafi flutningsmenn kannski ekki alveg hugsað tillöguna til enda. Það er auðvitað ágætt að leggja fram slíka tillögu, sem er nú frekar til þess að marka sér einhvern pólitískan bás. Ég geri engar athugasemdir við það að senda út skilaboð til sinna kjósenda og reyna að höfða til hugsanlega einhverra nýrra. En það er þó vert að hafa í huga að aðdragandinn að þessum tollasamningi er eiginlega frá því í maí 2011 þegar Landssamtök sláturleyfishafa og afurðastöðva í mjólkuriðnaði fóru þess á leit við stjórnvöld að þau beittu sér fyrir samningum við Evrópusambandið. Í júní sama ár óskaði Svínaræktarfélag Íslands eftir að ráðuneytið tryggði greininni útflutningskvóta til Evrópusambandsins. Og í júní 2013 lýstu einstakir alifuglaframleiðendur því yfir á fundi að ef samið yrði um stækkun á kvótum fyrir kjúkling væri nauðsynlegt að Ísland fengi gagnkvæmni o.s.frv.

Ég hygg að það sé rétt að halda því líka til haga í þessari umræðu að samningurinn, sem gerður var undir forystu þáverandi forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þáverandi utanríkisráðherra, Gunnars Braga Sveinssonar, og þáverandi hæstv. landbúnaðarráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar, var gerður að frumkvæði samtaka bænda sem lögðu til að hafist yrði handa við að semja við Evrópusambandið.

Ein af ástæðum þess að menn vildu tryggja gagnkvæman tollasamning, tollkvóta, var að þeir óttuðust að ákveðin óvissa gæti skapast eða væri að skapast, ekki síst myndi aukinn pressa verða á opna tollkvóta þar sem viðkomandi vara er ekki fáanleg á innlendum markaði. Opnir tollkvótar myndu festa sig í sessi með lækkuðum tollum og þegar fram liðu stundir yrði hætta á að lækkaðir tollar yrðu meginregla en ekki undantekning. Af þessu ekki síst höfðu íslenskir bændur miklar áhyggjur.

Nái þessi tillaga fram að ganga hygg ég að við sjáum fram á þessa óvissu vegna opinna tollkvóta, sem ég hygg hins vegar að við þurfum að endurskoða. Ég hefði miklu frekar í sporum hv. flutningsmanna lagt til að við myndum endurskoða regluverkið í kringum opna tollkvóta sem vill svo til að við erum líka að skoða í tengslum við það regluverk sem við teljum rétt að innleiða við úthlutun á tollkvótum í tengslum við tollkvótasamninginn við Evrópusambandið.

Ég hygg hins vegar að það sé rétt hjá flutningsmönnum að þær vonir sem menn bundu við gagnkvæman markaðsaðgang íslenskra landbúnaðarvara í Evrópu hafi kannski ekki gengið alveg eftir eins og menn vonuðust til. Þegar búið var að undirrita samninginn árið 2015 lét hæstv. þáverandi utanríkisráðherra og einn flutningsmanna þessarar tillögu hafa þetta eftir sér í fjölmiðlum, með leyfi forseta:

„Þetta er fagnaðarefni fyrir íslenska neytendur sem munu sjá þess stað í lækkuðu matvöruverði og útflytjendur sem munu vafalaust nýta sér þá möguleika sem í þessum samningum felast.“

Það kann að vera rétt að töluverð bjartsýni hafi ríkt, annars vegar um að íslenskir neytendur myndu njóta þessa samnings, en hann á eftir að koma að fullu til framkvæmda á næstu fjórum árum og það er verkefnið þannig að núna er of snemmt að dæma það. Hins vegar hafa kannski íslenskir framleiðendur og íslenskir bændur ekki nýtt sér tækifærið með þeim hætti sem þeir hefðu átt að gera. En það geta í sjálfu sér ekki verið rök fyrir því að menn eigi að segja slíkum samningum upp, þ.e. það að menn nýti sér ekki tækifæri sem þeir fá með alþjóðlegum milliríkjasamningum, fríverslunarsamningum sé orðin rök fyrir að segja slíkum samningi upp.

Ég er líka almennt mjög hugsi yfir þeirri þróun sem á sér stað í íslenskum landbúnaði. Ég hef áhyggjur af stöðu íslensks landbúnaðar. Mér sýnist að þær áskoranir sem íslenskur landbúnaður stendur frammi fyrir séu ekki nema að litlu leyti tengdar þeim tollasamningi sem við ræðum hér.

Ég er t.d. hugsi yfir því þegar ég les grein í Bændablaðinu eftir Ingva Stefánsson, formann Félags svínabænda, þar sem hann dregur fram þær staðreyndir að á meðan almennt verðlag hefur hækkað hér um 10% á síðustu fimm árum hefur verð til svínabænda lækkað um 13%. En verð til neytenda á svínakjöti hefur hækkað meira en verðlag. Þetta hefur gerst á sama tíma og markaðshlutdeild erlends svínakjöts er að nálgast það að verða um það bil þriðjungur. Hvernig hefur það gerst? Jú, það hefur gerst í gegnum opnu tollkvótana, ekki tollasamninginn við ESB. Þannig að ef það væri raunverulegur áhugi á því að ræða svona milliríkjaviðskipti, stöðu íslensks landbúnaðar gagnvart samkeppninni að utan, vegna þess að við viljum auðvitað líka tryggja neytendum hér aðgang að góðum matvælum og að þeir hafi frelsi til að velja sér matvæli, sem þurfa hins vegar að uppfylla þær kröfur sem við verðum að gera til heilbrigðis matvæla, þá hygg ég að flutningsmenn hefðu átt að flytja sérstaka tillögu um það eða a.m.k. hafa það inni að lagt væri til að við myndum endurskoða þær reglur og lög sem gilda um opna tollkvóta. Það eru þeir en ekki tollasamningurinn við ESB sem eru vandamálið.

Þetta er það sem ég vildi og taldi rétt að koma á framfæri, virðulegi forseti. Málið fær sína þinglegu meðferð en því miður er málið með þeim hætti að það verður a.m.k. ekki stutt af þeim sem hér stendur.