149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

skattleysi launatekna undir 300.000 kr.

8. mál
[18:39]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Frú forseti. Ég er meðflutningsmaður á þessari tillögu til þingsályktunar og er afskaplega ánægður með að hún sé komin fram. Tillagan er endurflutt frá fyrra þingi, en mikið hefur bæst við rökstuðninginn, þá aðallega með skýrslu dr. Hauks Arnþórssonar, Jöfnuður í skattkerfinu.

Þessi skýrsla og þessi tillaga okkar svona rökstudd er algjörlega nýtt innlegg í umræðuna um ómöguleikann sem svo mikið er rætt um, að hægt sé að færa launafólki og þeim sem eru undir 300.000 kr. skattleysi. Menn hafa talað eins og það sé ómögulegt að breyta þessu. Hér í þessari tillögu okkar og í skýrslu Hauks Arnþórssonar er kristaltært að það er enginn ómöguleiki á ferðinni.

Tillagan gerir ráð fyrir því, eins og mjög nákvæmlega er skýrt út í greinargerð, að verið sé að hækka skattleysismörkin 100%, þ.e. í 106.000 kr. rúmar eins og var hér þegar staðgreiðslan var tekin upp 1987. Gert er ráð fyrir að persónufrádrátturinn verði stiglækkandi og eyðist út við tekjur upp að 970.000 kr., að þeir sem eru þar fyrir ofan í tekjum hafi engan persónufrádrátt. Þannig er gert ráð fyrir að breytingarnar verði að hluta til fjármagnaðar með því að færa skattbyrðina frá lægstu tekjuhópunum, sérstaklega þeim sem eru undir 300.000 kr., yfir á tekjuhópa sem eru þar langt fyrir ofan og byrjar ekki að telja fyrr en í tekjum fyrir ofan rúmar 560.000 kr. Þarna er einungis verið að færa skattbyrði til á milli tekjuhópa. Gert er ráð fyrir að því að skattþrepin verði óbreytt frá því sem nú er.

Að langmestu leyti er einungis um að ræða tilfærslur innan skattkerfisins og mest tilflutningur milli tekjuhópa. Þó er samkvæmt þessari tillögu gert ráð fyrir því að eftir standi rúmir 30 milljarðar sem er þá kostnaðarauki sveitarfélaga í formi útsvarstekna. Tillaga okkar er ekki dýrari en það að tillaga í kosningaloforðum Sjálfstæðisflokksins, sem hljóðaði upp á að lækka skattprósentuna niður í 35% yfir línuna, er á svipuðum nótum og þessi tillaga. Þetta er nú ekki meiri ómöguleiki en það.

Ég vona að við náum að ræða þessa tillögu hér á þingi og í nefnd og úti í þjóðfélaginu þannig að það komi fram svart á hvítu hvernig þetta er og hvernig þetta er hægt.

Ef ég fer aðeins yfir skatthlutfall undanfarinna ára þá hefur skatthlutfall launa sem eru 2/3 af meðallaunum hækkað frá árinu 2000 til ársins 2017 um 270%. Skatthlutfall fólks, einhleypings, sem er með 2/3 af meðallaunum — hlutfallið árið 2000 var 5,9% skattur á þessi laun. Í dag er hann 22%. Þarna hefur þetta aukist næstum um 300% á mjög lág laun. Skatthlutfall einhleypings með meðallaun hefur aukist úr tæpum 29% í 33%, eða um 15%, þ.e. miklu minna. Ef við förum aðeins ofar — skatthlutfall einhleypings með tæplega tvöföld meðallaun, eða 167% af meðallaunum, hefur lækkað úr 39,6% í 38,3%; hann hefur lækkað um 3%. Þetta er það sem hefur verið að gerast síðustu 17 árin. Skattbyrði á lægri tekjuhópana hefur verið að hækka verulega en skattbyrði meðallauna og þar fyrir ofan hefur staðið í stað að mestu og lækkað á allra efstu launin. Þetta eru staðreyndirnar. Þetta er leiðrétting til baka fyrir þessa hópa, þessi þingsályktunartillaga sem við flytjum hér um að fjármála- og efnahagsráðherra verði falið að beita sér fyrir því að þetta verði leiðrétt eins og segir í þingsályktunartillögunni.

Það sem breytist aðallega varðandi aðstöðu skattgreiðenda er sem hér segir:

Þeir sem eru með laun frá gildandi skattleysismörkum, 151.978 kr., til nýrra skattleysismarka, 300.000 kr., fá launin sín óskert, skatthlutfall yrði 0%.

Þeir sem nýta skattleysismörkin best eru með 300.000 kr. mánaðarlaun. Þeirra ráðstöfunartekjur hækka um 21,6%, eða um 51.225 kr. Tekjuhópurinn 300.000–425.000 kr. fær auknar ráðstöfunartekjur frá því sem nú er; 51.000–25.000 kr., en þær eru fallandi með hækkandi tekjum. Skattbyrði yrði 0–16,5%.

Tekjuhópurinn 425.000–562.000 kr. fær 25.000–0 kr. í auknar ráðstöfunartekjur, sem væru lækkandi og skattbyrði hans yrði 16,5–26%.

Þeir sem eru með tekjur á bilinu 562.000–970.000 kr. verða með lægri ráðstöfunartekjur, 0–53.895 kr. og 26–36,8% skattbyrði. — Það yrði nú ekki meira en það.

Þeir sem eru hærra myndu fara ofar í skatthlutfallinu.

Ég vænti þess að þessari þingsályktunartillögu verði vísað til nefndar.