149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

skattleysi launatekna undir 300.000 kr.

8. mál
[18:47]
Horfa

Flm. (Ólafur Ísleifsson) (Flf):

Herra forseti. Örfá atriði rétt til áréttingar. Það er þannig að skattkerfið okkar er með þeim hætti að skipting persónufrádráttarins milli ríkissjóðs og sveitarfélaga gerir það að verkum að eingöngu er greitt útsvar á tekjubilinu 152.000–250.000 kr. Taki menn eftir því að útsvarsgreiðslur fólks á þessu tekjubili eru 13 milljarðar kr. á árinu 2017, 13 milljarðar af fólki sem hefur ekki fyrir framfærslu miðað við opinber viðmið í því efni. Á tekjubilinu 250.000–300.000 kr. taka sveitarfélögin aðra 13 milljarða á meðan ríkissjóður tekur 3,5 milljarða. Þannig að á tekjubilinu upp í 300.000 eru sveitarfélögin að taka 26 milljarða, ríkissjóður 3,5. Auðvitað myndi þessi tillaga lækka útsvarstekjur sveitarfélaga og best að segja það upphátt.

Þessar tölur, herra forseti, draga það fram hversu mjög fjármögnun sveitarfélagastigsins er háð skattlagningu á lágar tekjur, að ekki sé sagt lægstu tekjur, herra forseti. Þetta gæti auðvitað þurft að jafna, enda hefur ríkið fært kostnaðarsama þjónustu til sveitarfélaganna á síðustu árum. Þó skal minnt á það að sveitarfélögin flest hver, eða a.m.k. mörg hver, hafa innheimt miklu hærri fasteignagjöld af íbúðareigendum á síðustu árum en áður vegna hækkana á fasteignamati.

Herra forseti. Það er kannski rétt að nefna það, eins og hv. þm. Karl Gauti Hjaltason vék að hér áðan í sinni ræðu, að í greinargerð og í skýrslu Hauks Arnþórssonar, sem fylgir þessari tillögu, er fjallað um fleiri tillögur um breytingar á skattkerfinu en þessa. Þar á meðal er fjallað um tillögu sem Sjálfstæðisflokkurinn, flokkur fjármálaráðherra, beitti sér fyrir, eða a.m.k. talaði fyrir, fyrir síðustu kosningar. Það er um það að lækka lægra skattþrepið úr 36,94% í 35%, sem er ríflega 1,5 prósentustiga lækkun á þessu skattþrepi.

Það er reiknað út í skýrslu Hauks Arnþórssonar að kostnaðurinn af þessari tillögu yrði tæplega 24 milljarðar kr. Kostnaðurinn af þeirri tillögu sem hér er mælt fyrir er nokkru hærri, vissulega, liðlega 31 milljarður — og ég geri ekki lítið úr þessum mun á nokkurn hátt, þetta er umtalsvert fé — en það er ekki himinn og hauður þarna á milli. Það eru reyndar fleiri kostir sem eru reiknaðir út í þeirri skýrslu sem fylgir þessari tillögu.

Þannig að hér er, leyfi ég mér að segja, herra forseti, lögð fram markverð tillaga um það að breyta þessu fyrirkomulagi. Það er rakið í því efni sem við höfum hér lagt fram, í greinargerð og í skýrslu Hauks Arnþórssonar, að sú tillaga sem við berum hér fram, Flokkur fólksins með atbeina tveggja hv. þingmanna Miðflokksins, felur í sér há skattleysismörk og lækkandi persónufrádrátt. Þessi tillaga nær tilgangi sínum um jöfnun miklu betur en 35% leiðin sem ég gat um áðan, hún lækkar skatta upp allan tekjustigann. Hér er allt annað á ferð. Hér er verið að jafna innan kerfisins og nota peninga sem í einhverjum skilningi eru til inni í kerfinu í þágu þeirra sem lægstir eru og eru með lægri laun almennt talað.

Kostnaðarmunur þessara leiða er miklu minni, eins og ég hef hér rakið, en ætla mætti og skýrist, eins og ég áður gat um, af flutningi skattbyrðar á milli tekjuhópa.

Það er rakið í greinargerð og skýrslu að tekjur opinberra aðila hækka, ef að líkum lætur, um 40 milljarða kr. frá 2017–2019 vegna hækkaðra tekna skattgreiðenda. Þarna ræðir kannski um 32 milljarða kr. hjá ríkinu og 13 milljarða kr. hjá sveitarfélögunum. Þetta er nánar rakið. Það er náttúrlega ekki óeðlilegt, herra forseti, og eiginlega ekkert nema eðlilegt, að einhver hluti þessarar tekjuaukningar, sem sjá má fyrir, sé notaður til þess að jafna skattbyrði og rétta hlut þeirra sem lægstar hafa tekjurnar.