149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

dagur nýrra kjósenda.

27. mál
[18:54]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um dag nýrra kjósenda. Þessi tillaga beinist að forseta sjálfum og okkur öllum sem hér sitjum og snýst um það að Alþingi álykti að fela forseta Alþingis að opna dyr Alþingis á vordögum ár hvert fyrir þeim sem öðlast kosningarrétt viðkomandi ár og skipuleggi dagskrá þar sem boðið er upp á fræðslu um lýðræðislega þátttöku. Forseti haldi utan um skipulag og framkvæmd dagsins ásamt sérfræðingi sem ráðinn verði sérstaklega tímabundið til verkefnisins. Við skipulagningu verði haft samráð við dómsmálaráðherra, menntamálayfirvöld og samtök ungs fólks og innflytjenda. Nái þessi tillaga fram að ganga er það von þess sem hér stendur að dagur nýrra kjósenda verði fyrst skipulagður á vordögum 2019.

Ásamt þeim sem hér stendur standa að tillögunni 16 þingmenn úr flestum flokkum. Þegar ég var að vinna þessa tillögu þá lék ég mér að því að kalla hana lýðræðiskarnival. Grunnhugsunin er að þetta sé skemmtilegur viðburður, hér opnum við dyr þessa merkilega húss þar sem við störfum, bjóðum hingað velkomið það fólk sem hefur fengið kosningarréttinn, réttinn sem gerir okkur kleift að starfa hér í umboði þjóðarinnar, bjóðum einu sinni á ári það fólk velkomið sem það árið bætist í hóp kjósenda. Við umvefjum það og þetta verði næstum því eins konar rítúal, að við bjóðum fólk velkomið í hóp fullorðinna og fullgildra kjósenda og þátttakenda í lýðræðinu eins og þar tilheyrir.

Það sem skiptir líka máli er að með þessu værum við að teygja okkur í þessa hópa ekki bara fyrir kosningar. Það er nú eitthvað sem ég held að við könnumst flest við sem höfum tekið þátt í kosningabaráttu. Oft eru áhugaverðustu umræðufundirnir t.d. í framhaldsskólum sem eru uppfullir af nýjum kjósendum og fólki sem er við það að verða kjósendur. Þetta er fólk sem nýtur ekki fullrar athygli þeirra sem starfa við stjórnmál nema kannski helst fyrir kosningar. Það er ekki nógu gott. Það er ekki bara slæmt gagnvart þeim heldur líka gagnvart okkur af því að við þurfum þessa endurgjöf frá nýju fersku fólki sem kemur með nýjar hugmyndir að borðinu. Eins og við höfum orðið svo ítrekað vör við á undanförnum árum þá eru kynslóðir ungra Íslendinga uppfullar af pólitískum eldmóði og nýjum og ferskum hugmyndum sem hafa margar nú þegar breytt samfélaginu. Ég nefni ýmiss konar samfélagsmiðlabyltingar sem hafa komið ótal mikilvægum málum á dagskrá. Við þurfum að ná þessum krafti utan úr samfélaginu inn í hin hefðbundnu stjórnmál, sýna fólki sem svo augljóslega hefur margt fram að færa að einn af stöðunum sem það getur fært það fram er hér við Austurvöll í samtali við hefðbundnu stjórnmálin.

Undanfarin ár höfum við sem störfum við stjórnmál haft áhyggjur af dvínandi þátttöku í kosningum. Ég veit ekki hvort forseti hefur tekið eftir því en í gær birti Hagstofan niðurstöður varðandi kosningaþátttöku í sveitarstjórnarkosningum nú í vor. Þar er aukning frá síðustu sveitarstjórnarkosningum en ekki er hún mikil, hún er allt of lítil, satt best að segja. Eins og reyndin hefur verið í hvert einasta sinn sem þetta hefur verið mælt þá er þátttakan minnst hjá yngstu hópunum, hjá þeim sem eru undir þrítugu. Það fólk skilar sér ekki á kjörstað í sama mæli og þau sem eldri eru. Þetta hefur aftur áhrif á það hvernig þingið er samsett, hvernig sveitarstjórnirnar eru samsettar, hvernig samfélagið þróast til framtíðar. Þetta þýðir að hér innan veggja Alþingis eru raddir ungs fólks ekki jafn sterkar og þær ættu að vera.

Eitt af því sem við getum gert til að breyta þessu er að samþykkja þessa tillögu sem hér liggur fyrir sem gengur út á það að við teygjum okkur sérstaklega út til þeirra sem verða 18 ára á árinu, sem telja á bilinu 4.000–5.000 manns ár hvert, og til þeirra sem fá ríkisborgararétt á hverju ári sem eru á að giska 400–500 manns hvert ár. Þetta eru tveir af þeim hópum sem hvað verst skila sér á kjörstað og þetta eru tveir af þeim hópum sem eru ekki í þessum sal í nægilegum mæli.

Það er enginn innflytjandi eða þingmaður af innflytjandaættum á þingi þetta kjörtímabilið. Það er einn þingmaður undir þrítugu þetta kjörtímabilið. Þetta er hluti af vandanum. Þetta viðheldur þeim vanda að fólki finnst hefðbundin stjórnmál ekki vera í tengslum við samfélagið þegar við endurspeglum samfélagið ekki betur en þetta.

Við framkvæmd dags nýrra kjósenda legg ég til að við horfum ögn til þess sem hefur verið gert hjá Reykjavíkurborg sem vann heilmikið starf fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar til þess að ná til sérstaklega ungra kjósenda en líka kjósenda með erlendan ríkisborgararétt af því að þar eru opnari skilyrði varðandi kosningarrétt en til þingkosninga. Sendur var persónulegur bréfpóstur á allt þetta fólk. Gamaldags aðferð en eitthvað sem ég held að við gætum tekið upp. Senda bréf, boðsbréf á dag nýrra kjósenda. Kæri nýi kjósandi, komdu og hittu okkur. Hittu fulltrúa stjórnmálaflokkanna, hittu félagasamtök, hittu hagsmunasamtök sem geta sýnt þér hvernig þú getur haft áhrif á samfélagið í gegnum stjórnmálin. Með þessu værum við að axla aukna ábyrgð á því að sýna þessu fólki gildi þess að hafa áhrif.

Það skiptir miklu máli við framkvæmd slíks dags að við vöndum til verka. Við megum ekki festast í þessum kassa hér heldur legg ég til í tillögunni að fenginn verði utanaðkomandi sérfræðingur til að halda utan um verkið og að það verði unnið í nánu samstarfi við annars vegar samtök ungs fólks, eins og til að mynda Landssamband ungmennafélaga og Samband íslenskra framhaldsskólanema sem eru þeir aðilar sem hafa staðið að #ÉgKýs verkefninu, og hins vegar verði unnið náið með sérfræðingum í málefnum innflytjenda og allt verði gert til þess að kynningarefni höfði til þessara ólíku hópa og höfði til sem flestra þannig að við séum að tala til hópsins sem við bjóðum velkominn.

Þá er rétt að geta þess að hér innan þings er auðvitað heilmikill mannauður sem mætti nýta við þennan dag. Ég er ekki bara að tala um okkur atvinnumennina í stjórnmálum sem eigum að sjálfsögðu að mæta og kynna okkar verkefni og sjónarhorn og ræða við fólkið sem sækir okkur heim, heldur líka starfsfólk Alþingis sem hefur áralanga reynslu af að taka hér á móti hópum. Hér er rekið Skólaþing, hér er tekið á móti hópum ungs fólks oft á viku og það leitt í gegnum þingið. Þetta er fólk sem gæti hjálpað okkur að vinna þetta vel.

Svo er náttúrlega spurningin hvort þetta virki. Ég held að þetta muni virka. Ég held að þetta muni jafnvel vinda upp á sig þannig að eftir nokkur ár taki einhver áhugasöm sveitarfélög svipað verkefni upp á sína arma og fari að bjóða þeim kjósendum sem eru með kosningarrétt til sveitarstjórnarkosninga í heimsókn í ráðhús úti um landið. Þá erum við að sýna fólki að það sé hluti af þessu lýðræðislega samfélagi sem okkar starf byggir á. Fyrst við erum hérna á smátrúnó, herra forseti, þá er ég kannski bara að vona að fólkið sem þekkist þetta boð gangi inn í þetta hús og fyllist sömu tilfinningu og ég næ enn þá að fyllast, þótt ég hafi starfað hér í tvö ár; finna þessa tilfinningu að hér er þungamiðja lýðræðisins í landinu, fyllast þeirri auðmýkt sem fylgir því að vera í sama húsi og þingið hefur starfað í í eina og hálfa öld nú.

Hér gerast hlutirnir og hérna eigum við að vinna góð verk og það er von mín að með því að taka vel á móti fólki þá getum við smitað það af þessari tilfinningu, þessari spennu sem við sem störfum hérna höfum fyrir verkefnunum. Kannski skilar það sér í aukinni kosningaþátttöku en það er ekki endilega eina markmiðið. Þetta á aðallega að skila sér í alvörusamtali á milli okkar og fólksins sem sækir okkur heim sem við störfum fyrir.