149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

dagur nýrra kjósenda.

27. mál
[19:07]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir framsögu þessarar tillögu sem hér er á dagskrá. Ég ætla fyrst að segja af því að þessi liður heitir andsvar að hér er ekki um eiginlegt andsvar að ræða heldur er ég að nota tækifærið, vona að virðulegur forseti fyrirgefi mér það, til að kom inn á nokkra þá þætti sem hv. þingmaður kom mjög vel inn á.

Hér er um að ræða tillögu um að fela forseta Alþingis að opna dyr Alþingis á vordögum ár hvert fyrir þeim sem öðlast kosningarrétt viðkomandi ár. Mér er hugsað til þess dags sem kemur hér fram í greinargerð þegar 100 ára afmælis kosningarréttar kvenna var minnst og þeirrar heimsóknar. Það var frábær dagur, tókst mjög vel.

Svo eru öll þau góðu áform sem í þessari tillögu felast. Ég held að þetta sé mjög vel til fundið og vil koma því að við ræðum mikið um það að efla lýðræðið og efla þátttöku ekki síst ungs fólks í samfélagslegri umræðu. Ég orða það kannski frekar þannig heldur en að segja þátttöku í pólitík. Að það taki þátt í þessari umræðu. Þetta er til þess fallið að auka traust á stjórnmálum, stjórnmálaflokkum og Alþingi sem löggjafa og ekki síst að sýna að það sé hægt að hafa áhrif á okkar starf og á samfélagið.