149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

dagur nýrra kjósenda.

27. mál
[19:09]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni hans jákvæða andsvar. Ég hef einmitt séð myndir af þessum degi 2015 þegar nærri 2.000 manns gengu hér um sali Alþingis og fengu aðeins að drekka söguna og stemninguna í sig. Þetta hefur greinilega verið mjög góður dagur og það sýnir líka hvað það er auðvelt að hrinda þessu í framkvæmd. Þetta er mjög viðráðanlegt verkefni, það að opna þetta hús, það að við leggjum okkar vinnu fram og gerum þetta bara.

Þingmaðurinn nefndi lykilatriðið sem er að sýna fólki að það geti haft áhrif, hvernig það getur haft áhrif og að efla lýðræðið. Þetta eru hlutir sem við erum alltaf að tala um. Við erum alltaf að tala um að við þurfum einhvern veginn að auka þátttöku í kosningum, við þurfum einhvern veginn að efla lýðræðið og blása fólki lýðræðisandann í brjóst.

Hér er ein mjög einföld aðgerð til að gera það og ekki til að láta einhvern annan gera það heldur fyrir okkur sjálf að gera það, okkur sjálf að bera ábyrgð á því. Ef forseti leyfir mér að sletta smávegis þá er þetta svona „put your money where your mouth is“-mál. Hér erum við að gera það sem við erum alltaf að tala um að þurfi að gera.