149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

dagur nýrra kjósenda.

27. mál
[19:11]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni samtalið og svarið við þeim atriðum sem ég kom að í fyrra andsvari. Hv. þingmaður kom inn á það í sinni ræðu að þrátt fyrir að við reynum að nálgast það lýðræði að endurspegla samfélagið í þessum þingsal þá gerir það það ekki. Hv. þingmaður kom inn á breytingar á samfélaginu og fjölgun innfluttra og að það skorti á að við speglum samfélagið að því leyti nægjanlega vel. Þessi tillaga sem gengur út á að opna þinghúsið og eiga samtalið við unga kjósendur stuðlar mögulega að því að við getum breytt þessu.

Ég vil nota tækifærið hér og spyrja hv. þingmann hvort hann sjái eitthvað annað sem við getum gert til þess að breyta þessu. Mig grunar að við þurfum að beita okkur í því að breyta þessu, jafnvel innan flokkanna, í okkar samtali út á við, hver stjórnmálaflokkur fyrir sig. Og af því að við erum nú komin á þær nótur þar sem ég get tekið undir með hv. þingmanni, ef hv. þingmaður er með hugmyndir í farteskinu, þá ætti mér vænt um að hann kæmi þeim hér að.