149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

dagur nýrra kjósenda.

27. mál
[19:13]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það eru ekki lítil verkefnin sem mér eru falin. Það er vissulega vandamál að við endurspeglum samfélagið ekki nógu vel hér inni á þingi. Þingmaðurinn nefndi eins og ég í framsöguræðu minni að hér vantaði ungt fólk og hér væru innflytjendur ekki í sama mæli og í samfélaginu sjálfu.

Þetta er hvort tveggja eitthvað sem minnkaði við síðustu kosningar á sama tíma og við fórum undir 40% mörkin hvað varðar hlut kvenna hér á þingi. Þessar þrjár breytur virðast haldast algjörlega í hendur. Þegar kemur að því að vera margbreytilegt þing þá er þetta allt saman tengt. Ég held að hluti af því sem við þurfum að gera til þess að breyta þessu sé að fá yngri kjósendur að kjörkössunum vegna þess, nú vona ég að enginn viðstaddur taki þessu illa, að unga fólkið í dag er svo miklu betra, betur þenkjandi, betur inni í málunum, réttsýnna en við sem eldri erum. Sú kynslóð sem er að vaxa úr grasi í dag á Íslandi gerir mig stundum bara orðlausan í því hvernig hún getur staðið fyrir hverju réttlætismálinu á fætur öðru.

Er eitthvað annað en þessi tillaga sem við getum gripið til? Já, það er heill hellingur. Þetta er pínulítill biti í risastóru púsli sem við þurfum að vinna saman, ekki bara til þess að ná ungu fólki, heldur vinna traust kjósenda almennt. Sýna fólki að það að greiða atkvæði skipti máli, það skili einhverju hér inni á þingi, það skili einhverju í samfélagsbreytingum. Þessi auma þingsályktunartillaga er bara lítið skref í þá átt.