149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

dagur nýrra kjósenda.

27. mál
[19:16]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mér líst mjög vel á þessa tillögu hv. þingmanns og vil fara yfir nokkur atriði sem mér finnst hún ríma við.

Til að byrja með hljómar hún ekkert ósvipuð þessari rokkhátíð samtalsins — Lýsa, fundur fólksins áður — en munurinn er sá að hún opnar dyr Alþingis sem mér finnst mikilvægt, að þetta hús, þessi stofnun, sé ekki eins einangrað og það hefur í verið á undanförnum áratugum. Enda lifum við á þeim tímum sem eru ekki nærri því eins einangraðir og áður.

Ég var með hugmynd og upphaf að máli í vinnslu um barnaþing sem mér var síðan tjáð að væri verið að vinna. Hugmyndin þar var einmitt líka að þessi salur yrði notaður í barnaþing. Ég er ekki viss hvort hann verður notað í því barnaþingi sem nú er verið að vinna að en ef ekki þá endilega komið þið með þá hugmynd hingað inn að fólk mæti og noti þennan sal. Ég er einnig með mál í vinnslu, sem ég kalla þjóðskráaþing eða eitthvað því um líkt, þar sem fólk af handahófi er í raun valið til þess að koma og flytja ræðu í þessum þingstól. Svipað eins og gert var á hátíðarfundinum, þar sem utanaðkomandi aðili var fenginn til þess að segja hæ við þing og þjóð.

Það eru mjög merkilegar og mjög mikilvægar ástæður fyrir því að við þurfum að taka þátt í þessu lýðræðislega samfélagi sem er ekki bara hér inni heldur fyrir utan líka og að bjóða þá velkomna sem eru að verða nýir kjósendur. Það sýnir sig í þessum tölum, þátttökutölum í kosningum. Vandamálið sem þær tölur sýna fram á er munurinn, kynslóðabil, sem er í þátttökunni. Það veldur mjög miklum vandamálum eins og kom t.d. fram í Brexit-kosningunni. Þegar það var skoðað eftir aldri hver kaus hvort fara ætti úr Evrópusambandinu eða vera í því þá var það eldri kynslóðin sem ákvað að fara úr Evrópusambandinu. Það fólk var að taka ákvörðun fyrir framtíðarkynslóðir. Þetta var ákvörðun sem hafði ekkert sérstaklega mikil áhrif á það fólk persónulega í árafjölda talið. Framtíðarkynslóðirnar vildu vera áfram í sambandinu og ef betri þátttaka hefði verið meðal yngra fólks hefði framtíð þeirra verið innan Evrópusambandsins.

Mér finnst áhugavert að ganga út frá því vandamáli sem við erum að reyna að vinna gegn með þessari tillögu, að brúa þetta kynslóðabil. Við verðum öll að vera þátttakendur í lýðræðissamfélagi, ekki bara eldri kynslóðin eins og verið hefur í undanförnum kosningum þar sem hlutfall eldri kjósenda sem hefur notað atkvæðaréttinn sinn hefur verið þó nokkuð hærra en hinna yngri.

Ég tek líka undir þau orð hv. flutningsmanns að unga fólkið í dag er einfaldlega miklu betur þenkjandi og miklu réttsýnna, ég tek hjartanlega undir það. Ég var til dæmis að horfa á þátt á Netflix sem heitir Explained og var verið að fara yfir muninn á launum kynjanna þar sem Ísland er í aðalhlutverki í raun og veru. Forsætisráðherra okkar er með þó nokkuð langt viðtal í þeim þætti. En sonur minn sem er átta ára sat þarna við hliðina á mér, hann bara bað mig að stoppa: Bíddu, bíddu stoppaðu hérna, hvað er þetta launamunur kynjanna dót, hvernig virkar það eiginlega, eru konur með lægri laun en karlar, ha? Þetta var ekki eitthvað sem var hugsandi, honum datt þetta ekki einu sinni í hug, fannst þetta svo skrýtið að hann bað mig um að stoppa þáttinn til að útskýra þetta betur fyrir sér. Hann var ekki alveg að gúddera þetta, afsakið slettuna, en ég leyfi mér að sletta.

Enn eitt atriði sem þetta varðar, kom inn á síðasta þingi, það var á 148. þingi. Það var frumvarp um lækkun kosningaaldurs sem einhverra hluta vegna, í miðri 3. umr., fór aldrei í atkvæðagreiðslu. Ég held að þingmenn ættu að íhuga það alvarlega hvað kom fyrir. Af hverju stoppaði mál í 3. umr.? Fullt af málum sem voru í 2. umr. fóru á undan því máli í þinglega meðferð og fóru í gegnum þingið, en mál í miðri 3. umr. fékk ekki að klárast, mál sem snerist um það að lækka kosningaaldur niður í 16 ár í sveitarstjórnarkosningum.

Mér finnst það rosalega stór spurning fyrir þingmenn að horfast í augu við það sem gerðist hér á síðasta þingi. Það voru ekki nema, eftir því sem við reiknuðum, að hámarki tíu klukkutímar eða eitthvað svoleiðis — ef allir hefðu notað allan sinn málsrétt og andsvör o.s.frv. — eftir af þeirri umræðu og örugglega mun styttri tími, fólk hefði væntanlega ekki nýtt allan þann tíma. Þannig að ef það hefði komið mál hér í upphafi einhvers þingfundar, eða það hefði verið sett fyrst á dagskrá og klárað, alla vega þannig að hægt hefði verið að greiða atkvæði um það — í framsögu, í 1. umr. og í gegnum 2. umr. þess máls, greiddu þingmenn í yfirgnæfandi meiri hluta atkvæði með því að lækka kosningaaldur. Breytingartillagan á lögunum, að lækka aldur úr 18 niður í 16, var samþykkt með yfirgnæfandi meiri hluta, mig minnir að einn hafi greitt atkvæði á móti ef mig misminnir ekki. Þetta er algjörlega eftir minni þannig að ég biðst afsökunar ef ég fer með rangt mál þar.

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu, um breytingu á þessum lögum, náðist ekki að klára málið hér á síðasta þingi. Ég býst við því, miðað við allt annað, að þetta mál fái góða framgöngu og að við getum þá líka klárað málið um lækkun kosningaaldurs en það er mjög merkilegt að það skuli ekki hafa klárast.