149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

skýrsla um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins.

[10:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta innlegg í umræðuna um skýrsluna, um erlenda áhrifavalda í aðdraganda hrunsins. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að það er orðið tímabært og mikilvægt að fylla inn í heildarmynd umræðunnar með því að skoða sérstaklega erlendu áhrifaþættina.

Það er auðvitað þannig að við höfum á fyrri stigum mála breytt lögum, fengið skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, meira að segja komið á fót Landsdómi og gengið til kosninga í nokkur skipti, og öll umræðan hefur snúist um innlenda áhrifavalda. Þess vegna taldi ég á sínum tíma mikilvægt að skoða erlendu þættina. Það sem við erum með í höndunum núna er samantekt, yfirlit yfir ýmsa þætti sem miklu skipta, t.d. að Íslendingar voru greinilega einangraðir á sínum tíma. Það gildir bæði hvað varðar samstöðu innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, en eins og allir muna tók marga mánuði að fá niðurstöðu í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vegna pólitískra deilna á þeim vettvangi um það hvort ætti að koma Íslandi til aðstoðar, og sömuleiðis voru nágrannaþjóðir okkar mjög tregar nema undir sérstökum stífum skilyrðum að styðja við þá efnahagsáætlun. Þetta er mjög athyglisvert og mikilvægt að halda til haga.

Hvað varðar Bretland sjáum við í skýrslunni samantekt um að þeir bankar sem voru felldir þar, Singer & Friedlander og Heritable-bankinn, voru alls ekki í neinum greiðsluvanda og greiddu til baka skuldir sínar ólíkt mörgum bönkum sem bjargað var og voru í miklu verri stöðu.

Þetta er afskaplega mikilvægt að sé aðgengilegt á einum stað í heildaryfirliti. Hér hef ég aðeins snert á örfáum atriðum sem ég tel mikilvægt að séu opinber, (Forseti hringir.) séu til staðar, þau eru núna til reiðu á ensku til þess að fylla inn í og vera til aðstoðar við að skýra ýmsa áhrifavalda í aðdraganda hrunsins á Íslandi.