149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

skýrsla um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins.

[10:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Sumt af því sem er rætt um í skýrslunni eru atburðir sem liðnir eru og það þjónar litlum tilgangi að reyna að benda á að hlutirnir hafi verið með einhverjum hætti. Tökum sem dæmi efnahagsaðstoðina innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það mál er frágengið, öll lán eru endurgreidd í dag.

Annað er þess eðlis að ekki síst varð tjón hjá einkaaðilum vegna þess. Það er þá fyrir þá að gæta að réttarstöðu sinni og hafa uppi athugasemdir.

Síðan eru hlutir sem varða beint samskipti við erlend stjórnvöld. Ég vil halda því til haga í þessari umræðu að við höfum í gegnum tíðina margoft haft uppi athugasemdir, t.d. gagnvart breskum ráðamönnum vegna þeirrar framgöngu sem Ísland varð fyrir af þeirra hálfu á sínum tíma. Það hef ég gert við mörg tækifæri sjálfur, persónulega, en ég ætla alls ekki að útiloka að skýrslan gefi tilefni til þess að taka upp þráðinn sérstaklega í einhverjum tilvikum án þess að ég sé tilbúinn til þess að úttala mig um hvaða mál það yrðu (Forseti hringir.) nákvæmlega sem þar ættu í hlut.