149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

verksvið forstjóra Barnaverndarstofu.

[10:44]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Í gærkvöldi birtust fréttir þess efnis að Bragi Guðbrandsson, þáverandi forstjóri Barnaverndarstofu, hefði ekki farið út fyrir verksvið sitt. Var þar vísað í endurskoðun velferðarráðuneytis á málefnum Barnaverndarstofu, barnaverndarnefnda og ráðuneytisins sjálfs. Það er nokkuð við þetta að athuga sem hæstv. ráðherra getur vonandi skýrt.

Í maí á þessu ári skipaði hæstv. forsætisráðherra nefnd til að fara yfir fyrirliggjandi gögn málsins og málsmeðferð viðkomandi stjórnvalda, þ.e. þeirra barnaverndarnefnda sem tengjast viðkomandi málum, Barnaverndarstofu og velferðarráðuneytis. Með skipun þeirrar nefndar tók forsætisráðherra málið úr höndum velferðarnefndar. Það var því mikið högg þegar í ljós kom þegar nefndin skilaði af sér sinni vinnu að búið var að þrengja rannsóknina niður í, með leyfi forseta, „athugun velferðarráðuneytisins á þeim kvörtunum sem því bárust vegna Barnaverndarstofu og þeirri niðurstöðu sem ráðuneytið lýsti í bréfi til forstjóra Barnaverndarstofu“.

Í fréttum í gær kom svo í ljós að þessi endurskoðun ráðuneytisins fjallaði aðeins um aðkomu Braga Guðbrandssonar að svokölluðu Hafnarfjarðarmáli. Höfum reyndar þann fyrirvara á að ekkert hefur komið frá ráðuneytinu um þessa endurskoðun, eða hafði ekki gert það, ég sé að það hefur komið núna nýlega. Allar mínar upplýsingar hef ég úr fjölmiðlum frá því í gær.

Hvenær mun ráðuneytið birta þessa endurskoðun sína á því klúðri sem þetta mál allt er orðið?

Hvers vegna fól ráðherra ekki óháðu nefndinni sem forsætisráðherra skipaði í maí að skoða þetta mál?

Almenna reglan í stjórnsýslu samkvæmt umboðsmanni Alþingis er að embættismenn skuli ekki koma að endurskoðun eigin verka í eftirliti innan stjórnsýslunnar enda sé slík aðstaða almennt til þess fallin að valda hættu á því að endurskoðunin og eftirlitið fari ekki fram á hlutlægum forsendum og rýrir tiltrú aðila máls sem og almennings á því að svo sé.

Hvers vegna sagði ráðherra sig ekki frá málinu, jafn viðkvæmu máli og raun ber vitni?

Var ráðherra hæfur til þess að taka það fyrir og komast að niðurstöðu?

Er þetta til þess fallið að efla traust?