149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

verksvið forstjóra Barnaverndarstofu.

[10:49]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Þessi úttekt var á sínum tíma unnin af tveimur óháðum lögfræðingum. Hvorki sá sem hér stendur né aðrir komu að því að stýra því með hvaða hætti það var gert. Það sama á við um þessa endurupptöku sem gerð var að beiðni Braga Guðbrandssonar og fallist á. Kristín Benediktsdóttir var ráðuneytinu til ráðgjafar í því og sá sem hér stendur kom ekkert að þeirri úrvinnslu.

Það er gríðarlega mikilvægt í þessu máli, ég get fallist á það, að styrkja stjórnsýslu ráðuneytisins. Það eru aðgerðir í gangi til að gera það. Meðal annars hefur sérstök gæða- og eftirlitsstofnun verið sett á fót sem er algjörlega óháð ráðuneytinu. Ráðuneytið er líka að styrkja sig stjórnsýslulega með uppskiptingu. Það er verið að ráðast í margvíslegar aðgerðir til að styrkja stjórnsýslu þess.

Ég hef alltaf fagnað því að ræða þetta mál og er tilbúinn í það, hvort sem er við velferðarnefnd eða stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Ég myndi fagna því og hefði bæði gagn og gaman af því. Ég hvet til þess að það verði gert og tek undir það með hv. þingmanni að það væri fróðlegt. Það væri líka fróðlegt að skoða vinnubrögð velferðarnefndar í þessu máli frá upphafi til enda.