149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

skattleysi uppbóta á lífeyri.

[10:54]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra svarið og leyfi mér í ljósi orða hans að treysta því að umrætt frumvarp verði lagt hér fram eigi síðar en 1. nóvember nk. Ég tel hins vegar fullt tilefni til að rifja upp hinn málefnalega grundvöll þessa máls. Hann er sá að enda þótt þetta heiti uppbætur á lífeyri er þetta í raun og sann ekkert annað en endurgreiðsla á ýmsum kostnaði sem fólk verður fyrir og ekki er endurgreiddur af hálfu Sjúkratrygginga Íslands.

Hér ræðir um heyrnartæki og ýmiss konar slíka þætti. Það að skattleggja eins og það væru tekjur endurgreiðslur af útlögðum kostnaði er mjög vafasamt, verður að segjast. Það að reikna þetta sem tekjur, sem hefur þá þau áhrif að það getur skert ýmsar bætur sem fólk nýtur, er sömuleiðis algjörlega fráleitt fyrirkomulag.