149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

fjöldi háskólamenntaðra.

[10:58]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa góðu fyrirspurn. Hún er mjög tímabær vegna þess að það er hárrétt sem hv. þingmaður nefnir, það er misræmi á milli þeirra sem eru útskrifaðir og þeirrar eftirspurnar sem er í atvinnulífinu.

Hún spyr um aðgerðir. Fyrst ber að nefna varðandi iðn-, verk- og starfsnámið að við erum að fara í umtalsverðar aðgerðir hvað það varðar. Við höfum verið að endurskoða reiknilíkanið fyrir framhaldsskólastigið og við þá endurskoðun er sérstök vigt á iðn-, verk- og starfsnámið. Við erum að bæta starfsaðstöðu í framhaldsskólum til þess að bæta öll skilyrði og vinna betur að þróun iðn-, verk- og starfsnáms.

Annað sem við erum líka að gera er til að mynda vegna þess að það er hreinlega skortur á kennurum inn í framtíðina, við erum að setja sérstaka fjármuni til þess að auka eftirspurn eftir því að fara í kennaranám. Við höfum sett sérstaklega 50 milljónir í það verkefni.

Það sem við höfum hins vegar séð, sem er mjög jákvætt og ég vil benda hv. þingmanni á, er aukning í innritun í ákveðnar greinar, t.d. rafiðn, 33% aukning núna í haust. Eins sjáum við líka aukningu varðandi kennaramenntunina þannig að nú þegar erum við farin að sjá einhvern ávinning af þeim aðgerðum sem við höfum farið í .