149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

húsnæðismál.

[11:13]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir og sömuleiðis innkomu hæstv. ráðherra. Við sem sitjum í velferðarnefnd áttum þess kost að heimsækja Íbúðalánasjóð í vikunni. Það var mjög gagnleg heimsókn og góð. Þar er greinilega margt gott að gerast. Þegar við ræðum húsnæðisöryggi og stuðning við fyrstu kaup er lykilatriði að ríki og sveitarfélög vinni saman og tali saman. Mig langar aðeins að velta þessu hér upp.

Vissulega er hlutverk Íbúðalánasjóðs líka mikilvægt þegar um er að ræða framboð á félagslegu húsnæði — og nú ætla ég að leyfa mér að hugsa upphátt. Það er skortur á húsnæði, við vitum það, og mér sýnist að stuðningur ríkisins hafi undanfarið farið minnkandi og stuðningur sveitarfélaga í málaflokkinn þar með aukist. Annað: Félagslegt hlutverk Íbúðalánasjóðs á að halda áfram, sýnist mér á öllu, og þá er spurning hvort Íbúðalánasjóður þurfi ekki að lækka vexti á þeim lánum sem hann veitir. Vextirnir eru 4,2% meðan aðrir geta boðið lægri vexti. Á sama tíma hefur kannski sá hópur sem við viljum skilgreina á þann veg að hann þurfi félagslegt húsnæði ekki aðgang að þeim lánum. Breytingin á þessu vaxtafyrirkomulagi þarf að koma frá Alþingi. Ég beini þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvernig honum lítist á það.

Ég vil bara minnast á þetta atriði hér því að með breyttri löggjöf og þar með nýju hlutverki Íbúðalánasjóðs er sjóðurinn nú sú stofnun sem ber ábyrgð á framkvæmd húsnæðismála. Að þessu sögðu þakka ég umræðuna.