149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

húsnæðismál.

[11:15]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Stefna Reykjavíkurborgar í skipulagsmálum á undanförnum árum hefur verið að 90% íbúa séu í byggð vestan Elliðavogs á lóðum sem helst eru í eigu einkaaðila og fjárfestingarfélaga. Áherslan í aðalskipulagi síðustu tíu ár hefur verið að þétta byggð á dýrum þéttbýlisreitum miðsvæðis sem hefur haft mikil áhrif á leigu- og húsnæðisverð. Sú stefna þeirra sem hafa stýrt borginni síðasta aldarfjórðunginn er einn af stóru þáttunum í þeirri slæmu stöðu sem upp er komin í stöðu húsnæðismála á höfuðborgarsvæðinu og þá sérstaklega í Reykjavík þar sem ekki er óalgengt að fermetraverðið í nýbyggingum sé 700.000–800.000 kr. Nýjustu dæmin um íbúðaverð eru fermetrar sem seldir eru á allt að 1.100.000 kr. fermetrinn í miðborg Reykjavíkur.

Langvarandi lóðaskortur í Reykjavík hefur verið undirliggjandi þáttur í því hversu slæm þróun húsnæðismálanna hefur verið um langt skeið. Ríkt hefur sannkallað ófremdarástand.

Á síðustu 20 árum, 1998–2018, hefur íbúum Reykjavíkur fjölgað um 18% en í nágrannabyggðum Reykjavíkur, þ.e. Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ, hefur íbúum fjölgað um 68% á sama tíma. Nágrannasveitarfélög Reykjavíkur hafa borið hitann af mannfjölguninni á höfuðborgarsvæðinu.

Lóðasveltistefna Reykjavíkurborgar undanfarinna 20 ára er stór áhrifavaldur í þeirri afleitu stöðu sem er uppi í dag á húsnæðismarkaðnum, stefna sem hefur átt stóran þátt í því að ýta upp húsnæðisverðinu í landinu sem hefur hækkað verðtryggð íbúðalán vítt og breitt um landið. Það er rétt að hafa í huga þegar við ræðum húsnæðismál og greinum orsök og afleiðingar þeirrar alvarlegu stöðu sem er uppi í þeim málum og reynum að átta okkur á orsakasamhenginu. Það á að fara í orsökina, ekki alltaf tala um afleiðingarnar.