149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

húsnæðismál.

[11:20]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Mér finnst hvorki ríki né sveitarfélög eða aðilar vinnumarkaðarins hafi staðið sig nægilega vel í því að tryggja öruggt húsnæði fyrir venjulegt launafólk undanfarin ár og áratugi. Ástandið á höfuðborgarsvæðinu er út úr kortinu, finnst mér, varðandi leiguverð og verð á húsnæði uppsprengt, sem gerir ungu fólki ókleift að kaupa nema með aðstoð foreldra. Og svo eru það þeir sem geta búið áfram í foreldrahúsum.

Staðan víða úti á landi er heldur ekki góð. Þar hefur verið húsnæðisskortur og hefur húsnæði kannski ekki verið byggt í marga áratugi. Þar hafa markaðslögmálin áhrif, byggingarverð er hærra en markaðsverðið. Eftir að lög um almennar leiguíbúðir voru samþykkt fór af stað uppbygging slíkra íbúða á þéttbýlisstöðum víða um land þar sem leiguverð á að vera viðráðanlegt. Það er gott. En við þurfum að standa okkur miklu betur og stórauka framboð á félagslegu húsnæði og stuðningi við fyrstu kaup ungs fólks.

Það vakti athygli mína og annarra þegar kalkþörungaverksmiðjan á Bíldudal reisti raðhús úr einingum frá Eistlandi á nokkrum vikum í sumar. Mér finnst að horfa þurfi til slíkra úrræða víða á landsbyggðinni og kannski líka hér á höfuðborgarsvæðinu.

Mér líst vel á margt af því sem ráðherra boðar í áætlunum sínum, t.d. aðgerðir til að styðja við fyrstu kaup og uppbyggingu á óhagnaðardrifnu leigufélagi með sveitarfélögum og aðilum vinnumarkaðarins. Kjarasamningar eru lausir í haust og áhersla verkalýðshreyfingarinnar á húsnæðisöryggi er mikil. Ég tek undir að ríkið eigi að koma þar að og tel að lífeyrissjóðirnir eigi að leggja sitt af mörkum í þeirri uppbyggingu.