149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

húsnæðismál.

[11:27]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Eins og fram kom í máli málshefjanda mun Samfylkingin á næstu klukkustundum leggja fram þingsályktunartillögu um aðgerðir sem ætlað er að auðvelda fólki fyrstu kaup, tryggja húsnæðisöryggi fjölskyldna í vanda og auka framboð leiguhúsnæðis. Við leggjum til varanlegar leiðir út úr þeim ógöngum sem við höfum ratað í, varanlegar leiðir í átt til menningar og sóma. Þetta eru átta tillögur og ég mun hlaupa á þeim mjög stuttlega.

Við leggjum til að frumvarp til laga verði lagt fyrir Alþingi um startlán að norskri fyrirmynd með það að markmiði að auðvelda ungu fólki og barnafjölskyldum fyrstu kaup á húsnæði.

Þá fari íslensk stjórnvöld að koma sér að því að byggja upp í það minnsta 5.000 leiguíbúðir á næstu árum til að koma fótunum undir leigumarkað sem er rekinn án hagnaðarsjónarmiða.

Í þriðja lagi leggjum við til að skyldur verði settar á sveitarfélög þegar kemur að félagslegu húsnæði með það að markmiði að jafna byrðar sveitarfélaga.

Í fjórða lagi að húsnæðis- og vaxtabætur verði hækkaðar í samræmi við launaþróun og skerðingar minnkaðar með það að markmiði að minnka skattbyrði lág- og millitekjuhópa.

Í fimmta lagi að íslensk byggingarreglugerð verði einfölduð og samræmd við reglugerðir annars staðar á Norðurlöndum til að greiða fyrir möguleikum á að gera einingar og raðsmíði hagkvæmari kost.

Í sjötta lagi að frumvarp til laga verði lagt fyrir Alþingi sem undanskilji tekjur einstaklinga vegna útleigu einnar íbúðar fjármagnstekjuskatti.

Frumvarp verði lagt fyrir Alþingi um breytingu á húsaleigulögum til að tryggja húsnæðisöryggi og réttindi leigjenda og annað um breytingu á lögum um húsnæðisbætur með það að markmiði að ungt fólk og öryrkjar sem deila húsnæði öðlist rétt á húsnæðisbótum.

Virðulegur forseti. Þetta er boðskapur og baráttumál jafnaðarmanna. Við væntum þess að þeir hv. þingmenn sem í raun vilja greiða götu þess mikla velferðarmáls að gera öllum kleift að búa við húsnæðisöryggi leggist af fullum þunga (Forseti hringir.) á sveif með okkur. Málið er ekki flókið, við viljum að allir geti átt heimili, að fjölskyldur og barnafólk séu ekki á hrakhólum.