149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

húsnæðismál.

[11:29]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni mikilvæga umræðu um húsnæðismál með hæstv. ráðherra Ásmundi Einari Daðasyni. Eins og fram hefur komið í umræðunni svo glögglega er öruggt húsnæði lykilatriði og á meðal forgangsmála að fólk hafi tök á að koma sér þaki yfir höfuðið. Við lítum á það sem algjöra grunnþörf. Auðvitað eru húsnæðismál kjaramál, hluti af lífskjörum ólíkra hópa á ólíkum stað í lífshlaupi sínu.

Þrátt fyrir góðan sameiginlegan vilja og mælikvarða sem segja okkur að hér sé almenn velmegun og lífskjör með því besta sem gerist í alþjóðlegum samanburði, þrátt fyrir þá auknu og almennu velmegun er það staðreynd að fasteignaverð er hátt og vextir háir sem gerir til að mynda ungu fólki erfitt fyrir að kaupa sína fyrstu eign, gerir leigumarkað erfiðan og húsnæðiskostnaðinn við að halda heimili hlutfallslega háan, hvort heldur átt er eða leigt, og enn fremur gerir það mörgum erfitt að ná saman endum milli launadaga. Stjórnvöld hafa í gegnum tíðina beitt ýmsum aðferðum til að ná því markmiði að tryggja húsnæðisöryggi; aðgerðir til stuðnings fyrstu kaupum, niðurgreitt lán með vaxtabótum, reynt að tryggja framboð á félagslegu húsnæði. Allt er þetta til staðar í dag og við sjáum það í fjárlagafrumvarpi, samtals 13,5 milljarðar sem er 100 þús. kr. á hvert einasta heimili í landinu. Með jöfnuð í huga og ólíka hópa eigum við að geta ráðstafað þeim miklu fjármunum (Forseti hringir.) á einfaldari og skilvirkari hátt.