149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

húsnæðismál.

[11:34]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að vekja athygli á þessu brýna máli sem við höfum reyndar rætt alloft á síðustu misserum í þessum ágæta þingsal.

Nýverið kom út skýrsla frá Íbúðalánasjóði sem sagði okkur m.a. að íbúðaverð í höfuðborginni væri með því lægsta á Norðurlöndum, sem ég verð reyndar að viðurkenna að kom mér svolítið á óvart. Engu að síður er leiguverð það allra hæsta. Þetta skýtur svolítið skökku við í mínum huga. Ég held að það sé alveg ljóst, og tek undir það sem hæstv. ráðherra fór með hér áðan, að það þarf að fara yfir regluverkið þegar kemur að leiguíbúðum til að tryggja réttindi leigutaka.

Ég verð samt að viðurkenna, virðulegi forseti, að mér finnst stundum eins og við tölum hér eins og við getum bara sveiflað einhverjum töfrasprota og lagt fram þingsályktunartillögur um að fjölga íbúðum um þetta mörg þúsund og þá bara gerist það og allir fái þak yfir höfuðið. Ég hef ekki trú á því að það sé alveg svona einfalt.

Það hefur verið ójafnvægi á þessum markaði svo áratugum skiptir. Hann fer reglulega upp og svo niður. Ég held að hlutverk okkar hér sé frekar að horfa til þess hvernig við getum til lengri tíma náð einhverjum stöðugleika á mannvirkjamarkaðnum, hjá þeim sem eru að byggja þessar íbúðir. Og kannski, í ljósi þeirrar fyrirspurnar sem kom hérna áðan til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, gæti líka verið að hluti af vandamálinu lægi í því að við höfum ekki nægilega marga iðnaðarmenn hér á landi. Ég þekki það sjálf að vera að reyna að fá málara, það er býsna erfitt.

Ég tek undir margt af því sem fram hefur komið hérna, en held líka að við ættum stundum að tala ögn rólegar, við munum nefnilega ekki geta leyst hér málin með því að varpa fram einhverjum tölum um að byggja svona mikið eða hitt. Við eigum fyrst og fremst að hugsa um rammann sem lýtur að þessu.

Það er vissulega skortur á lóðum og hefur verið á höfuðborgarsvæðinu. En ég vil þó líka taka fram að sveitarfélögin í kringum Reykjavík hafa byggt umtalsverðan fjölda af íbúðum á síðustu árum. (Forseti hringir.) Þá vil ég bara nefna að í Mosfellsbæ voru byggðar 400 íbúðir á árinu 2017 í 10.000 manna samfélagi. (Forseti hringir.) Það er því líka margt um að vera á höfuðborgarsvæðinu og töluvert hefur verið byggt.