149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

húsnæðismál.

[11:47]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Nei, hv. þm. Ólafur Ísleifsson, við ætlum ekki endalaust að ræða ofurvexti og verðtryggingu í því augnamiði að viðhalda því. En er kannski ekki kominn tími til þess að við förum þó aðeins að ræða um sjúkdóminn en ekki alltaf sjúkdómseinkennin? Þessir þingmenn geta endalaust komið hingað upp og talað um einhverja „kvikk“-lausn sem reddar öllu án þess að átta sig á afleiðingunum. Förum þá að taka undir með hv. þm. Jóni Steindóri Valdimarssyni og ræðum orsökina, ræðum krónuna, ræðum gjaldmiðilinn. Ég fer alveg óhræddur í þá umræðu.

Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, ég talaði einmitt um að við værum ekki að sveifla einhverjum töfrasprota. Hins vegar þurfum við að búa til varanlegan markað sem gerir það að verkum að ákveðinn hluti af íbúðamarkaðnum sé með þeim hætti að hér skapist ekki alltaf ófremdarástand þegar við lendum vegna óstöðugs gjaldmiðils niður í öldudal. Förum bara að ræða sjúkdóminn og hættum að ræða sjúkdómseinkennin.

Mér fannst bjartur tónn, herra forseti, í ræðu ráðherra en það vantar auðvitað áþreifanlegri aðgerðir. Það er áhugavert að hann nefni finnsku leiðina en ASÍ hefur margóskað eftir meira fjármagni í stofnframlög, án árangurs. Og hvað varðar svissnesku leiðina, um ráðstöfun lífeyrissparnaðar, hefur séreignarsparnaðurinn eingöngu nýst best stæða fólkinu og lífeyrissparnaður á ekki að vera vettvangur áhættufjárfestinga. ASÍ hefur lagst gegn þessari svissnesku leið. Ég held að við þurfum að ræða aðeins hvernig við náum stöðugra efnahagsumhverfi hér á landi áður en við förum að hvetja fólk til þess að eyða öllum lífeyrissparnaði sínum í hús. (Forseti hringir.)

Að lokum ítreka ég fyrri spurningu, sem hæstv. ráðherra svaraði ekki: Er hann tilbúinn að beita sér fyrir því (Forseti hringir.) að öll sveitarfélög í landinu þurfi að sinna (Forseti hringir.) skyldum sínum þegar kemur að uppbyggingu félagslegs húsnæðis eða ætlar hann að láta nokkur sveitarfélög í landinu bera það uppi?