149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[12:07]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Í samráðskafla fyrirliggjandi frumvarps, örstuttum kafla, 5. kafla, kemur fram að ekki hafi gefist tími til að hefja opið samráð um frumvarpið á stjórnsýslustigi, en gert sé ráð fyrir að atvinnuveganefnd Alþingis muni viðhafa slíkt ferli við þinglega meðferð frumvarpsins.

Gott og vel. Ég sótti fínustu kynningu forsætisráðuneytisins um ferla Stjórnarráðsins við frumvarpsdragagerð. Þar kom fram að sérstök rök þurfa að vera fyrir hendi til að mál eða frumvörp séu ekki lögð inn í samráðsgáttina svokölluðu. Meðal þeirra ástæðna sem þar geta legið fyrir er að mál hafi þótt sérstaklega brýn.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvers vegna mátti framlagning málsins ekki bíða í tvær til þrjár vikur svo slíkt samráð hefði getað farið fram?

Í samráðskaflanum kemur líka fram, með leyfi forseta:

„Við undirbúning frumvarpsins voru sjónarmið helstu hagsmunasamtaka atvinnurekenda og launþega í sjávarútvegi þekkt og nýttust til umræðu við meðferð og undirbúning frumvarpsins.“

En ég spyr: Hvenær og hvernig urðu þessi sjónarmið ráðherra kunn? Ég spyr líka hvort ráðherra hafi átt óformlegt samráð við hagsmunaaðila eða aðila sem þeim tengjast við undirbúning frumvarpsins.