149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[12:09]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að þetta frumvarp fór ekki í opið samráð og til þess liggja ýmsar ástæður. Það vannst hægar en ég hefði kosið. Á þingmálaskránni og í störfum ráðuneytisins í sumar var gert ráð fyrir því að þetta frumvarp kæmi til þingsins í september, ekki veitir af tíma. Ég tel þetta frumvarp mjög brýnt, af þeirri ástæðu sérstaklega að gildandi lög voru framlengd til bráðabirgða í vor út árið og við þurfum ný lög um veiðigjald 1. janúar á næsta ári.

Þingið þarf tíma, það sýnir sagan okkur, til að vinna með veiðigjöldin. Samráðið og sjónarmið helstu hagsmunaaðila liggja einfaldlega fyrir þó að ekki væri nema við umræðu og vinnslu málsins í vor. Ekkert óformlegt samráð hefur átt sér stað á milli mín og þeirra hagsmunaaðila sem hv. þingmaður getur hér um. Þetta er unnið af ríkisskattstjóra, fjármálaráðuneytinu, Fiskistofu, veiðigjaldsnefnd og síðan starfsmönnum ráðuneytisins.