149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[12:11]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þeirri spurningu sem ég fékk fólst ákveðin fullyrðing sem ég sagðist ekki geta svarað með neinum óyggjandi upplýsingum. Það liggur fyrir ákveðið mat frá því í vor um afkomu sjávarútvegsfyrirtækja sem sýnir fram á að framlegð í sjávarútvegi er svipuð prósentutala, sama af hvaða stærð útgerðarfélögin eða sjávarútvegsfyrirtækin eru. Við höfum, eins og ég gat um áðan, engar vísbendingar fengið um það í þessari vinnu að afkoma einstakra útgerðarforma versni meira en annarra.

Ef hv. þingmaður kynnir sér frumvarpið sér hún að reiknireglan er miðuð við afkomu af sérhverju kílói fisks og það gildir einu hver sækir fiskinn. Sá sem það gerir er að kaupa sér aðgang að auðlindinni og ríkið ætlar sér að taka gjald fyrir það ásamt því að eiga hlutdeild í þeirri afkomu sem sú veiði skapar.