149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[12:13]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta yfirferð yfir þetta stóra mál sem verður rætt hér lungann af deginum. En mig langar að nýta tækifærið hér til að drepa sérstaklega á tvö atriði. Í fyrra andsvari mínu langar mig að ræða aðeins þessa aðferðafræði við verðlagninguna, gjaldtökugrunninn sjálfan. Það kemur fram í frumvarpinu, í greinargerð, og jafnframt í máli hæstv. ráðherra að veiðigjaldið ráðist af rekstrarupplýsingum og aflamagni. Við erum sem sagt að tala um að það er enn, út frá því hvernig rekstrarupplýsingar eru ákvarðaðar, verið að halda pólitísku eignarhaldi á verðlagningu sjávarafurða frekar en að láta markaðinn ráða för.

Ég spyr því ráðherra hér í fyrra skiptið: Kom til greina við vinnslu þessa frumvarps að ákveða verðið þannig að setja t.d. lítinn hluta aflans á markað og láta verðlagninguna ráðast af þeirri niðurstöðu sem þar fengist? (Forseti hringir.) Ef það kom til greina en skilar sér ekki hingað inn í frumvarpið, af hverju var það? Og ef það kom ekki til greina og var ekki skoðað, væri ég ekki síður áhugasöm um að heyra af hverju það var ekki gert.