149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[12:17]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, það var ekki rætt. Við ræðum hér fyrst og fremst um ný lög um veiðigjald. Það hvernig nýtingunni er háttað og heimildir til aðgangs inn í auðlindina eru ekki hluti af gjaldtökunni og hafa ekki verið. Það er í sérstökum lögum sem kalla þá bara á allsherjarupptekt á lögum um fiskveiðistjórn. Við höfum ekkert verið á þeim stað. Við höfum fyrst og fremst verið að einbeita okkur að gjaldtökunni og þegar hv. þingmaður nefnir það hvort ég telji eðlilegt að ótímabundin nýtingarheimild kalli á hærri gjaldtöku: Vissulega má færa fyrir því gild rök. Fyrir hinu sjónarmiðinu einnig. En ég tel að sú gjaldtaka sem er í þessu frumvarpi, um 33% gjald af þeim afgangi sem eftir er eftir venjulegan rekstur, sé töluvert há. Þegar við horfum líka til annarra gjalda, þótt ekki væri nema að nefna tekjuskattinn, erum við komin í þessum efnum (Forseti hringir.) yfir 40% skatthlutfall og það kann að vera að mönnum þyki það ekki nægja. Ég deili alveg sjónarmiðum með þeim sem þykir þetta töluvert hátt hlutfall.