149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[12:23]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eigendur auðlindarinnar, sem eru þjóðin að mati hv. þingmanns, eiga að ákveða verðið. Það er hárrétt. En ég spyr, þegar við ræðum samanburð við Færeyjar: Hvers vegna byrja Færeyingar ekki á því að bjóða upp þorskheimildir í eigin lögsögu? Ekki er tekin króna fyrir hann þar. Hvers vegna ekki ef þetta er svona fjári gott? Af hverju byrja menn ekki á heimaslóð? Hvernig stendur á því að íslenski þorskstofninn er 264.000 tonn en sá færeyski 10.000 tonn? Er ekki eitthvað í umgengni okkar við auðlindina sem hefur skapað okkur þessa sérstöðu og þá stöðu að sjávarútvegur á Íslandi skarar fram úr á heimsvísu? Er þetta svona afleitt kerfi? Það er alveg sama hvort rætt er um umhverfislega þætti, verðlagningu eða nýsköpun í atvinnugreinum. Íslenskur sjávarútvegur skarar á öllum sviðum fram úr og hér eru menn að tala um að við eigum að fara að rústa því kerfi. Það er ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar. (Gripið fram í: Það er enginn að tala um að rústa kerfinu.) Jú.