149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[12:31]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég spurði hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra áðan að því hvers vegna við alþingismenn ættum að ákveða verð á fiski. Hann brást illa við og sagði að það værum við alls ekki að gera. En það er rangt hjá hæstv. ráðherra. Í hverri greininni á fætur annarri í þessu frumvarpi sem lagt er hér fram til umfjöllunar, og mun síðan koma til samþykktar, kannski breytt, frá atvinnuveganefnd, eru settar niður forsendur, sumar í tölum og aðrar í viðmiðum. Þannig að hér erum við í þessum sal að ákveða verð á fiski.

Hvers vegna látum við ekki markaðinn ráða eins og við gerum þegar verð er ákveðið á annarri vöru? Það er spurning sem við verðum að svara. Það gera Færeyingar. Og fá þrisvar sinnum hærra verð fyrir kílóið á þorski en þetta frumvarp gerir ráð fyrir. Reyndar er það svo að verði frumvarpið að lögum lækka veiðigjöld fyrir kílóið af þorski um 40% á milli áranna 2018 og 2019. Kílóið færi þá úr tæpum 22 kr. í tæpar 14 kr.

Það er mjög mikilvægt fyrir þjóð sem byggir efnahag sinn eins mikið á nýtingu náttúruauðlinda og Íslendingar gera að hafa beinar tekjur af nýtingu þeirra. Heppilegasta leiðin til að ákveða gjald fyrir sérleyfi til nýtingar á takmarkaðri auðlind er að nýta markaðslögmálin og bjóða út sérleyfin og útfæra tilboðsleiðina með því að setja reglur sem taka tillit til byggðasjónarmiða, koma í veg fyrir samþjöppun og virða sérstöðu minni útgerða. Og þetta er allt hægt. Það liggur beinast við að nota tilboð á tilboðsmarkaði þegar kvóta tiltekinnar fisktegundar er útdeilt eða viðbótartonnum samkvæmt tillögum Hafrannsóknastofnunar. Ólíklegt er að sátt náist um upphæð veiðigjalds fyrr en það verður ákvarðað á markaðslegum forsendum.

Og einn af kostum tilboðsleiðarinnar er að leigugjald sem greitt er fyrir aflahlutdeildir sveiflast sjálfkrafa með arðsemi veiða og dregur úr líkum á pólitískum inngripum um ákvörðun leiguverðs. Sú leið er gegnsæ, fyrirsjáanleg og skiljanleg, en hæstv. ráðherra finnst mikilvægt að leiðin sem mörkuð er sé það.

Það er meira að segja nægilegt að taka hluta af kvótanum og bjóða hann út til þess að fá viðmiðunarverð. Eigendur auðlindarinnar eiga rétt á því að fá viðmiðunarverð við þetta verð sem alþingismönnum er ætlað að ákvarða með forsendum í frumvarpinu. Þannig byggist upphæð leiguverðs ekki á matskenndum ákvörðunum eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu sem við ræðum hér og eigendur auðlindarinnar, fólkið í landinu, geta treyst því að ekki sé verið að hygla einum umfram annan.

Útgerðin ákvarðar sjálf það gjald sem hún telur sér fært að greiða fyrir aðgang að auðlindinni með tilboðum á markaði og það kemur líka í veg fyrir brask með kvótann. Einnig styrkir tilboðsleiðin rekstrarumhverfi sjávarútvegsins til lengri tíma vegna þess að duttlungar stjórnmálamanna ráða ekki með ófyrirséðum breytingum frá einu kjörtímabili til annars. Svigrúm innan kerfisins verður meira með tilboðsmörkuðum og nýliðun möguleg sem veitir best reknu fyrirtækjunum aukin tækifæri, hvort sem þau eru gömul eða ný.

Í útfærslu tilboðsleiðar er auðvelt að taka tillit til byggðasjónarmiða, koma í veg fyrir samþjöppun og virða sérstöðu minni útgerða. Reynsla af tilboðsleið til úthlutunar auðlinda er víðtæk um allan heim. Það er auðvelt að leita í smiðju nágrannaþjóða, svo sem til Færeyja og Norðmanna, eftir góðum fyrirmyndum.

Eins og ég benti á áðan í andsvari við hæstv. ráðherra buðu Færeyingar út kvóta í apríl, maí, júní og ágúst á þessu ári, alls 15% af kvótanum í Færeyjum. Niðurstaðan varð þessi: Kílóið af þorski fór á 38,7 íslenskar kr., þ.e. 180% hærra verð en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Reyndar er sá afli veiddur í Barentshafi þar sem við gerum ekki ráð fyrir neinu veiðigjaldi, ekki heldur í þessu frumvarpi. Veiðigjöldin hér miðast við Íslandsmið eða heimamiðin. Kílóið af kolmunna fór á útboði Færeyinga á 8,8 kr. en frumvarp hæstv. sjávarútvegsráðherra gerir ráð fyrir að ríkið innheimti 57 aura. Þarna er munurinn heldur betur mikill eða 1.444%. Kílóið af makríl fór á útboði Færeyinga á 89,9 kr. en hæstv. sjávarútvegsráðherra leggur til að Íslendingar innheimti 3,55 kr. Munurinn er 2.432%. Þetta er svo mikill munur að það er algerlega óásættanlegt að láta hann liggja óskýrðan. Þess vegna hlýtur hæstv. ráðherra að sjá til þess að sérfræðingar ráðuneytisins útskýri þennan mun.

Þjóðin á kvótann. Það stendur í lögum og það hefur Hæstiréttur staðfest margsinnis. Við getum breytt kerfinu þegar við viljum. Það þarf einungis ákvörðun Alþingis til að gera það.

Herra forseti. Ef rétt er á málum haldið leiðréttir tilboðsleiðin óréttlæti sem felst í því að ávinningur af hagræðingu innan útgerðarinnar renni í vasa fárra en íbúar sjávarbyggða beri kostnaðinn og auðveldi nýliðun í greininni. Fiskmarkaðir á Íslandi eru góðar fyrirmyndir þar sem markaðslausnir ráða. Þar kaupa fiskvinnslur án kvóta fisk daglega á tilboðsverði. Þau fyrirtæki hafa enga aðra rekstrartryggingu en þá að tilboðsmarkaðurinn verði starfandi á morgun. Aldrei er deilt um fiskverð á fiskmarkaði eftir að viðskiptin hafa átt sér stað enda hafa kaupandi og seljandi komið sér saman um verðið. Allar fiskvinnslur landsins hafa jafnan aðgang að fiskmörkuðum. Nýliðun í fiskvinnslu er því miklu auðveldari en í veiðunum.

Það er mikilvægt að greina muninn á veiðum og vinnslu. Fiskvinnsla borgar ekki veiðigjöld og hefur aldrei gert. Hækkun eða lækkun veiðigjalda hefur engin áhrif á rekstur fiskvinnslu. Eingöngu veitt magn af fiski hefur áhrif á framboð á fiski til fiskvinnslunnar og á fiskverð því að verðmyndun á veiddum fiski er frjáls. Réttlát veiðigjöld hafa ekki áhrif á hve margir fiskar eru dregnir úr sjó og því ekki á fiskverðið heldur. Vextir og sveifla íslensku krónunnar hafa hins vegar áhrif á rekstur fiskvinnslunnar.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra lagði á það áherslu í kynningum sínum í gær að veiðar ættu að greiða veiðigjöldin en ekki vinnslan. Þetta er villandi framsetning því að vinnslan hefur aldrei greitt veiðigjöld. Hins vegar hefur hagnaður fiskvinnslunnar verið veginn inn í ákvörðun veiðigjaldsins. Það var gert til að mynda ekki hvata fyrir útgerðarfyrirtækin til að færa hagnaðinn frekar yfir á vinnsluna og hafa þannig áhrif á að veiðigjöldin lækki. Nú er hins vegar horfið frá þessu og þá verður þessi hvati raunverulegur og þrýstingur gæti myndast frá öllum útgerðum, að þær sem hafi tækifæri til færi hagnaðinn í auknum mæli á vinnsluna og því fylgja um leið lægri veiðigjöld og lægri laun til sjómanna. Það þarf að gæta sérstaklega að þessu þegar þessar breytingar eru gerðar.

Forseti. Nú geta þeir sem fá úthlutað kvóta stungið fullu veiðigjaldi í eigin vasa með því að selja og leigja kvóta til þriðja aðila. Sem dæmi má nefna að kvótalitlar útgerðir hafa þurft að greiða stærri útgerðum undanfarið um 170 kr. fyrir kílóið af þorski í veiðigjald á meðan ríkið innheimtir aðeins 22 kr. í veiðigjald. Það fer nefnilega fram útboð á aflaheimildum á Íslandi. Því er bara ekki stýrt af opinberum aðilum. Ávinningurinn rennur ekki í ríkissjóð heldur í vasa útgerðarmanna sem leigja frá sér kvóta sem ríkið hefur úthlutað þeim.

Niðurstöður Hafrannsóknastofnunar úr stofnmælingu botnfiska á Íslandsmiðum sýna að árgangar 2014 og 2015 sem komu í veiðina 2018 og 2019 eru við langtímameðaltal og því má búast við að viðmiðunarstofninn stækki. Niðurstöður stofnmælinga eru mikilvægur þáttur í árlegri úttekt Hafrannsóknastofnunar á ástandi nytjastofna við landið og mælingarnar frá því í mars 2016 benda til góðs ástands bestu botnfiskstegunda og horfur eru á aukinni nýliðun í veiðistofnum þorsks og ýsu á næstu fiskveiðiárum. Fyrir tíu árum var þorskkvótinn 124.000 tonn en nú er hann rúm 264.000 tonn. 140.000 tonnum hefur því verið skipt á milli kvótahafa fyrir utan rétt um 5% sem fara nú í byggðapottinn.

Fiskveiðikerfinu þarf að breyta í heild sinni. En það er hægt að stíga strax skref í rétta átt. Þorskkvótinn var aukinn fyrir þremur árum um 21.000 tonn, á þarsíðasta fiskveiðiári um 5.000 tonn, á síðasta fiskveiðiári um 14.000 tonn og um 6.000 tonn fyrir yfirstandandi fiskveiðiár. Mælingar Hafrannsóknastofnunar benda til að kvótinn verði enn aukinn á næstu fiskveiðiárum. Ef Hafrannsóknastofnun gerir tillögu um viðbótarkvóta þarf lagabreytingin að vera þannig að bjóða megi aukninguna út. Hvers vegna ættum við líka að rétta útgerðinni viðbótarkvótann á silfurfati og stærstu útgerðunum bróðurpartinn? Þær líða sannarlega engan skort.

Herra forseti. Það þarf ekki að setja allan kvóta í útboð í einu. Það hefur aldrei verið tillaga Samfylkingarinnar. Það má stíga smærri skref, t.d. bjóða út viðbótarkvóta eða ákveðinn hluta kvótans til að fá viðmiðunarverð fyrir veiðigjöldin. Ég hvet til þess að við tökum höndum saman og bjóðum út nægilegt magn til að fá viðmiðunarverð fyrir veiðigjöldin. Hvað er því til fyrirstöðu? Kallað er eftir gegnsæju kerfi. Útboð er gegnsætt og mun gegnsærra en þær tillögur sem við ræðum hér í dag. Á meðan kvótinn er ekki boðinn út þurfum við, að mínu mati, í það minnsta að hækka veiðigjöldin á stærri fyrirtækin. Ég legg til að það gjald verði 50% á heimildir umfram 5.000 tonn og að fjármunirnir sem fyrir það fengjust yrðu nýttir til þess að styrkja byggðir landsins til fjölbreyttrar atvinnuuppbyggingar. Það er afar mikilvægt fyrir þjóð sem byggir efnahag sinn eins mikið á nýtingu náttúruauðlinda og Íslendingar gera að hafa beinar tekjur af nýtingu þeirra. Þjóðaratkvæðagreiðsla um efnisatriði nýrrar stjórnarskrár frá því í október 2012 leiddi í ljós afgerandi stuðning þjóðarinnar við ákvæði um ævarandi þjóðareign á náttúruauðlindum, að nýtingarrétti yrði úthlutað til ákveðins tíma gegn fullu gjaldi og með gegnsæjum og hlutlægum hætti. Það þarf að fylgja þeirri niðurstöðu eftir og innleiða heildstæða auðlindastefnu á forsendum sjálfbærrar þróunar þannig að þjóðin njóti arðsins af auðlindum sínum.

Herra forseti. Ég hef ekki farið út í einstaka þætti frumvarpsins í smáatriðum. Ég hef ekki farið út í að skoða nákvæmlega hvað það er sem á að draga frá heildarverðinu til þess að mynda stofninn til að reikna út veiðigjaldið. Þar er bæði breytilegur kostnaður en líka fastur kostnaður. Þar eru vextir og fjárfestingar. Það þarf að skoða þetta allt saman og atvinnuveganefnd þarf að fara yfir hversu mikið af auðlindarentunni rennur til þjóðarinnar. Eru það 33%? Eru það kannski bara 20%? Þegar við vorum að vinna með frumvarpið árið 2012 samþykkti Alþingi að þjóðin fengi rúm 60% af auðlindarentunni, að umframarðurinn sem skapast af auðlindinni myndi að meiri hluta renna í ríkissjóð, en samt sem áður myndu útgerðin og þjóðin deila með sér þeirri rentu.

Ég hef lokið máli mínu.