149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[12:50]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Með útboði á aflaheimildum er möguleiki á nýliðun. (Sjútvrh.: Það er …) Það getur vel verið að enginn nýr hafi boðið í kvótann í Færeyjum, það má vera. Ég þekki ekki síðasta útboðið en ég veit að það voru ekki nýir aðilar sem buðu í kolmunna og makríl. (Gripið fram í: Tveir?) Hins vegar var það möguleiki. En það er ekki möguleiki hér. Það sem ég legg áherslu á hér er að Færeyingar fá miklu hærra verð fyrir þann kvóta sem boðinn er út en verið er að leggja til með þessu frumvarpi. Hlutfallslegur munur skiptir þúsundum. Það er stórkostlegur munur sem við, eigendur auðlindarinnar, verðum að fá skýringu á. Við verðum að fá skýringu á þessu. Það sem væri einfaldast er auðvitað að nota útboðsleiðina, þótt ekki væri nema til að fá (Forseti hringir.) viðmiðunarverð. Þá þyrftum við ekki að vera að þrasa um þessa hluti hér, þá fengjum við viðmiðunarverð. Og útboðsleiðin er gegnsæ, skiljanleg og framkvæmanleg.