149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[12:58]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála grunninum í málflutningi hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur, reyndar ekki í þeirri ræðu sem hún hélt núna heldur ræðu sem hún hélt sem hæstv. fjármálaráðherra í júní árið 2012 þegar við lögðum fram frumvarp um veiðigjöld þá, þegar hæstv. ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar sat.

Þá sagði hv. þingmaður, þáverandi fjármálaráðherra, með leyfi forseta:

„Þegar krónan er sterk skilar veiðigjaldið minna í ríkiskassann en á móti kemur að staða ríkissjóðs er yfirleitt betri þegar krónan styrkist. Þannig má líta á að veiðileyfagjaldið sé sveiflujafnandi fyrir ríkissjóð og stilli einnig rekstri útgerðarfyrirtækjanna þannig að þar séu líka minni sveiflur þannig að við gætum sagt að það sé eðlilegri grunnur.“

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún hafi algjörlega skipt um skoðun frá því sem hún sagði þarna, að þetta sé eðlilegri grunnur, og eins hvort, af því að ég skil hennar málflutning pínulítið þannig, matskennda atriðið snúist bara um prósentuna. (Forseti hringir.) Væri hún sátt ef prósentan væri hærri en 33%?