149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[13:02]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Svo ég sé alveg skýr vil ég að hærra hlutfall af auðlindarentunni renni til þjóðarinnar en gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi. Það er algjörlega á hreinu.

Ég hef talað fyrir útboði á aflaheimildum vegna þess að það er gegnsætt, skiljanlegt, framkvæmanlegt og tíðkast í viðskiptum. Ég hef talað fyrir því, eins og Vinstri grænir hafa reyndar gert í sinni stefnu, að hluti aflans, 1/3 ef ég man rétt úr stefnu Vinstri grænna, sé settur á markað, 1/3 sé í gamla kerfinu og 1/3 byggðatengdur.

Ef við bjóðum út hluta af aflaheimildum fáum við viðmiðunarverð, þá verða allir að segja sannleikann. Það er verðið sem útgerðin treystir sér til að greiða fyrir kíló af fiski. (Forseti hringir.) Ég vil að við bjóðum út hluta af aflaheimildunum eins og Færeyingar gerðu, ég er ekki að tala um allt þeirra fiskveiðikerfi. Þeir hafa boðið út aflaheimildir, þeir hafa fengið miklu hærra verð en við og við þurfum að fá skýringar á því hvernig á því stendur og af hverju við gerum ekki eins og þeir í þeim efnum.