149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[13:04]
Horfa

Páll Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Oddný Harðardóttir segir að aðalatriðið í þessu máli öllu sé, eins og hún orðar það, að þjóðin fái hærra hlutfall af auðlindarentunni, það renni til þjóðarinnar, en gert er ráð fyrir hér. Því spyr ég eins og sumir aðrir hafa spurt: Hvert þarf hlutfallið að vera? Erum við þá bara að tala um að það eigi ekki að vera 33% af því sem eftir stendur heldur eitthvert annað hlutfall? Þá spurningu vil ég endurtaka.

Annars fjallaði ræða hv. þingmanns ekki um þetta veiðigjaldafrumvarp heldur um fiskveiðistjórnina í heild og það er ekki margt sem ég hlakka meira til en að ræða við hv. þingmann um einmitt hana.

Það er einhver meinloka í því að bera saman uppboðsverð á veiðiheimildum í Færeyjum sem Færeyingar geta reyndar ekki beitt á eigin tegundir inni í eigin lögsögu vegna þess að þeirra fiskveiðistjórn er í molum og hefur verið það í áratugi. Þeir hafa ofveitt úr öllum sínum stofnum (Forseti hringir.) öfugt við það sem hér gildir. Ég sé að mínútan er útrunnin og reyni að nota hina betur. (KÓP: Maður er sjómaður.)