149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[13:05]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég er búin að segja hér áður vil ég að þjóðin fái meiri hlutann af auðlindarentunni í sinn hlut. 33% eru ekki meiri hluti ef þetta er sannarlega auðlindarenta sem reiknuð er út í þessu veiðigjaldafrumvarpi sem við erum að tala um hér.

Yfir þetta verður hv. atvinnuveganefnd að fara. Við lögðum það til 2012 að þjóðin fengi rúm 60% og útgerðin 40%. Þau myndu deila með sér auðlindarentunni þrátt fyrir allt, en þá var líka búið að reikna út eðlilegan arð fyrir útgerðina. Eigið fé sjávarútvegsfyrirtækja hefur aukist um 300 milljarða frá hruni og arðsemi eigin fjár og EBITDA sem hlutfall af rekstrartekjum hefur verið að jafnaði í það minnsta tvisvar sinnum meiri en í öðrum greinum. (Forseti hringir.) Þjóðin á að fá stærri hluta af þessum gróða.